16.05.1950
Sameinað þing: 50. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í D-deild Alþingistíðinda. (3694)

151. mál, friðun Faxaflóa

Atvmrh. (Óhafur Thors):

Herra forseti. Ég get í öllum aðalatriðum tekið undir með þm. Borgf., enda er hann manna kunnugastur þessum málum og hefur lengst og bezt barizt fyrir, að þeim verði komið í viðunandi horf.

Fyrrverandi ríkisstj. hafði þetta mál til meðferðar og voru lögin nr. 44 1948 allvel undirbúin. Núverandi ríkisstj. hefur málið til athugunar á nokkuð breiðari grundvelli. og verður allt gert, sem fært þykir, til að ná sem beztum árangri. Hins vegar tel ég tæplega hægt að samþ. þessa till., sem hér liggur fyrir, eins og hún er orðuð, því að við erum ekki lausir við samninginn við Breta fyrr en 1951, en alkunnugt er, að Bretar eru aðalfiskveiðiþjóðin hér við land. Varla er heppilegt að fara að banna öðrum þjóðum, sem minna veiða hér, þar sem slíkt bann gæti verið misskilið og þar af leiðandi mjög óvinsælt. Ég held, að við verðum að varast eftir megni að baka okkur óvinsældir í þessu máli, vegna þess að við eigum lausn þess svo mikið undir skilningi og góðvild annarra þjóða. Hins vegar met ég mikils áhuga þessa hv. þm. í þessu mikla hagsmunamáli og tel það heppilegt eins og hann og styrk fyrir ríkisstj. að fá einhuga afstöðu Alþingis. En vegna þess að þetta er víðkvæmt og vandasamt mál, tel ég rétt, að orðalagi till. verði breytt, þannig að Alþingi álykti að skora á ríkisstj. að athuga svo fljótt sem fært þykir o. s. frv., enda ætti það orðalag að vera nægilega greinilegt til að sýna vilja Alþingis. — Ég vil leyfa mér að leggja þessa brtt. fram og vænti, að veitt verði afbrigði fyrir henni strax, þar sem hraða þarf afgreiðslu málsins, en brátt líður að þinglokum. Till., svo orðuð, styrkir málstaðinn, þó að hún leggi ekki neinar kvaðir á hæstv. ríkisstj., enda veit ég, að það vakir ekki fyrir flm., þó að hann vilji láta kné fylgja kviði, eftir því sem auðið og heppilegt er.