11.01.1950
Efri deild: 27. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins minnast með örfáum orðum á hinn svo kallaða frílista, án þess að gera því mál þau skil, sem þyrfti, því að ef það ætti að gera frílistamálinu full skil, þá brestur mig í fyrsta lagi kunnugleika á hinum mörgu hliðum þess máls, og þar að auki yrði það of langt mál að rekja það hér. En ég minnist á þetta atriði hér vegna þess, að ég vil ekki, að atkvgr. mín um þetta mál verði skilin svo, að ég sé meðmæltur því, að haldið sé áfram með hinn svo kallaða frílista, heldur þvert á móti, og í öðru lagi til þess að láta koma fram rödd um það hér í hv. þd., hvernig a.m.k. sumir þm. líta á þennan frílista, og að ekki sé með þögninni alveg goldið samþykki þeirri yfirlýsingu, sem hér kom fram hjá hæstv. atvmrh. Hann bætti því við í sinni ræðu, að þetta ástand, sem þessar bráðabirgðaráðstafanir eru liður í, væri að vísu bráðabirgðaástand, sem ekki væri á neinn hátt æskilegt, og ég er honum samþykkur um, að hann hafi ekki tekið þar of djúpt í árinni. En ég ætla með örfáum orðum að benda á nokkur atriði.

Þá er það fyrst, að heimildin fyrir þessum frílista er meir en lítið vafasöm, og mun þó vera talin eiga stoð í gjaldeyrisl., því að þar er heimilað að setja ýmis skilyrði fyrir innflutningi. Og þetta hefur verið teygt þannig, sem ég skal ekki dæma um, en ég hygg, að flestir séu sammála um, að sé of teygt í l., sem sé að binda innflutninginn því skilyrði, að gjaldeyririnn sé seldur með svo og svo miklu álagi. Ef t.d. vara er flutt út fyrir 100 þús. kr., þá er heimild til þess að selja gjaldeyrinn fyrir hana með svo eða svo miklu álagi, sem getur komizt í 120%. Og það er m.ö.o. verið að fella íslenzku krónuna í þessu tilfelli sem þessu nemur. Þetta álag hefur verið mjög misjafnt, ég veit, að það hefur verið frá 30% og jafnvel upp í 120%, að mér hefur verið sagt. Heimildin til þess að gera þetta er mjög vafasöm, og var byrjað á þessu í sambandi við hrognin. Það var þá sagt sem svo: Hrognin verða ekki nýtt, nema þau fáist seld með þessu móti og síðan sé sett þetta innflutningsálag á þennan gjaldeyri. Þetta þarf að gera, til þess að framleiðslan svari kostnaði. — Nú vil ég vekja athygli hv. þm. á því m.a., hvert þetta leiðir. Þetta leiðir oft til þess — og þarf ekki að vekja athygli á því —, að erlenda varan, sem fyrir þessa útflutningsvöru er keypt, hún verður þeim, sem hana kaupa, stundum þeim mun dýrari sem álaginu nemur en sama vara flutt inn á annan h átt. Og þess vegna er það, sem gert er hér það má kalla það söluskatt, sem getur verið 30% og upp í 120% á vöruna. Og það má segja, að í framkvæmdinni sé þetta sama og að fella gengi íslenzku krónunnar, að því er þessu við kemur, eftir því sem þarf við sölu hverrar vöru, til þess að það fáist greiddur framleiðslukostnaðurinn á útfluttu vörunni. Við skulum segja, að það séu seld hrogn og sett 50% álag á gjaldeyrinn. Sjá allir, hvaða gengisfelling það er. Þess vegna er það, að þegar við athugum, hvaða stefnu þetta mál hefur tekið, þá er hér um meira en lítið alvarlegan hlut að ræða, ef athugað er jafnframt, hvað mikill ágreiningur er um það hér á Alþ., hvort eigi að breyta genginu eða ekki. Þegar talað er um að breyta genginu, þá er talað um að lækka gengið í samræmi við það, sem þarf til þess, að í aðalatriðum fáist jafnmargar íslenzkar krónur og framleiðslan þarf, til þess að hún beri sig á því augnabliki, sem gengið er fellt. Og nú hefur einmitt á þessum mjóu þvengjum, sem þarna er gripið til í gjaldeyrisl., verið veittur innflutningur á vissum vörum með geysilegri gjaldeyrisálagningu. Þetta hefur leitt til þess, að með hrognin var þá komið inn á þetta, sem nú er rætt um að lögfesta:

1. Söltuð og reykt Faxasíld.

2. Fryst Faxasíld.

3. Vetrarsíld frá öðrum veiðisvæðum.

4. Smásíld.

5. Gellur.

6. Kinnfiskur.

7. Sundmagi.

8. Hákarls- og háfsskrápur.

9. Hákarls- og háfslýsi.

10. Alls konar fiskroð.

11. Reyktur fiskur.

12. Grálúða, witches, megrin og frystur háfur.

13. Hrogn.

Og nú var rætt um það í 14. lagi að taka lýsi, sem ekki fyrir löngu var okkar gull af gjaldeyri. Og nú spyr ég hv. þm., þegar verið er að ræða um gengisfellingu eða ekki gengisfellingu: Ber sig nokkuð verr framleiðsla á lifur en lýsi og freðfiski? Vantar nokkuð meira á, að það verð fáist fyrir lifur, sem þarf til þess að svara framleiðslukostnaði, heldur en á vantar, að það verð fáist fyrir frosinn fisk til þess að svari framleiðslukostnaði? Nú er talað um þorskalýsið, okkar gull, sem var selt fyrir dollara fyrir seinustu styrjöld. Hvar eru takmörkin? Er ekki alveg eins hægt, ef ríkisstj. hugsar sér að taka lýsið, að taka helminginn af freðfiskinum. Nú er talað um, að hætta sé á því, að erfitt verði að selja freðfiskinn, og mjög

talað um, að útlitið sé ekki glæsilegt. Því ekki að taka helminginn af freðfiskinum og setja hann á frílista? Og ef freðfiskurinn er tekinn, hvers vegna þá ekki að taka mikið af saltfiskinum? Og fyrst búið er að taka fjórtándu útflutningsvöruna núna, hvar eru þá takmörkin fyrir því, sem ekki má taka? M.ö.o., við erum þess vegna að leggja í hendur ríkisstj. að breyta genginu, ekki eftir föstum reglum, heldur að breyta genginu eftir því, sem hún sjálf álitur nauðsynlegt um leið og hver vara er seld. Það er orðið það óbundnasta gengi, sem til er í nokkru landi í veröldinni. Þannig mætti halda áfram, því að hver vill standa upp hér ag segja, að það mætti taka þorskalýsið sem fjórtándu tegundina, en ekki taka frosinn fisk, og eftir að frosni fiskurinn væri tekinn, að það mætti ekki taka í fimmtánda lagi saltfiskinn? Ef ríkisstj. er heimilað að taka 14 tegundir og breyta genginu að því er þær snertir, hvers vegna má þá ekki taka 15 eða 20 tegundir? Hér erum við komnir út í algert öngþveiti. Ef ríkisstj. treystir sér til þess að afhenda þetta vegna annarra hagsmuna, þá getur hún eftir þessum röksemdum gert það. Það er af þessum ástæðum, að þeir menn, sem alls ekki eru hrifnir af ábyrgðinni, kjósa heldur að taka ábyrgð á lifrinni þennan stutta tíma, en að láta bæta við lifrinni, sem til skamms tíma var aðalútflutningurinn, inn á frílistann. Ég er ekki að segja, að sjómenn séu ekki vel að þessu komnir; því skal ekki neitað, ég veit vel um þeirra hag og margir þeirra eru mínir umbjóðendur, en það er aðeins spurningin um það, hvort við erum að bæta okkar hag með þessu, að ætla að ganga inn á þessar ógöngur, sem verið er að ganga inn á og við erum í rauninni komnir inn á. Það þarf ekki að lýsa því fyrir hv. þm., hvaða afleiðingar þetta hefur að öðru leyti, að bæta við á hverju ári nýjum og nýjum vörutegundum, sem gæti endað með því, að búið væri að framkvæma gengisbreytingu í flestu, án þess að þingið hefði nokkuð um það að segja, vegna þess að búið er að sleppa beizlinu þarna fram af. En við sjáum, hvaða áhrif þetta hefur. Þegar seld er vara með þessu móti, þá hefur seljandinn enga sérstaka hagsmuni af því að reyna að selja vöruna fyrir hátt verð erlendis, og þetta getur dregið á eftir sér margs konar dilka, því að maður getur sagt Þetta verð ég að fá, þetta kostaði að framleiða vöruna. — Síðan verður gengisálagið þeim mun meira, sem varan er seld fyrir lægra verð. Ég er ekki að segja, að þetta sé misnotað, en það sjá allir, hvaða tilhneigingar þessi leið getur haft í för með sér, ef um óráðvendni er að ræða. Síðan er verzlað með þetta. — Svo er eitt atriði í sambandi við verðlagseftirlitið, sem ég vil benda á. Það hefur verið tekið hér dæmi um hatta. Hver vill segja um það, hvort þessi eða þessi hattur eða þessir sokkar eru keyptir fyrir gotupeninga eða fyrir annan gjaldeyri með engri álagningu? Öllu verðlagseftirliti er kippt upp með þessu móti, því að það getur enginn maður sagt um það, ef fluttar eru inn sömu vörutegundir, hvort þær eru keyptar fyrir frjálsan gjaldeyri, sem kallaður er, með 30–40–60% álagi, og verði þess vegna að selja vöruna fyrir þetta hærra verð. Svo eru fluttar inn vörur fyrir gjaldeyri með venjulegu móti, og vitanlega er í lófa lagið, ef seljandi vill, að nota sér að selja sömu vörutegund, hvort sem það eru hattar eða annað, með því verði, sem sett er á þær vörutegundir, sem eru keyptar fyrir svo kallaðan frjálsan gjaldeyri eða álagsgjaldeyri. Þannig kippir þetta fyrirkomulag undirstöðunni undan allri heilbrigðri verzlun, eða getur gert, meðan það byggist á því, að vöruskortur sé, og verður að halda uppi verðlagseftirliti.

Ég sagði áðan, að ég ætlaði aðeins að benda á örfá atriði, og ég ætla að láta hér staðar numið. En ég get ekki stillt mig um að leiða enn á ný athygli hv. þm. að því, hvar þetta lendir og hvaða leið við erum raunverulega komnir á, ef á að fara að bæta lýsinu við sem fjórtándu vörutegundinni, þar sem gengið er skráð eftir því, sem ríkisstj. ákveður, hver sem hún er, á þeim tíma sem ákvörðun er tekin. Ég skal ekki draga úr því, að vanda till., sem hér koma fram, svo sem till. um lifur. Ég vil ekkert draga úr þeim rökum, sem koma fram um þetta atriði. Annað er það, að ef við gerum ráð fyrir því, sem við allir gerum, að þessi mál verði tekin til endurskoðunar og varanlegrar úrlausnar fyrir 1. marz, þó að ábyrgðin gildi til 15. maí, til þess að útvegsmenn geti treyst hliðstæðum ráðstöfunum, þá er þannig frá frv. gengið, að ekki er hægt að komast hjá því að taka málið fyrir, fyrir 1. marz. Þess vegna virðist mér um þessar fræðilegu upplýsingar, mismun á lifrinni að vetri til og að sumri, að það atriði geti ekki komið til greina þessa tvo mánuði, og ég geri ráð fyrir því, að við það sé einmitt miðað með flutningi þessarar till. í Nd. og jafnframt af flm. till. hér, hv. 2. þm. S-M. Hins vegar skal ég ekki á neinn hátt draga úr því, að till. sé athuguð í n., en vil aðeins benda á þetta atriði, að það er ekki líklegt, að þau fræðilegu rök, sem komið hafa fram gegn till., eigi við um þetta tímabil, sem ætlazt er til, að ábyrgðin nái yfir.

Ég skal svo láta staðar numið, en vildi, eins og ég sagði í upphafi, ekki láta hjá líða að benda á, á hvaða leið við erum komnir með þennan svo kallaða frílista, og ég bið hv. þm. að hugleiða það mál, því að ég held það sé alvarlegra, en þm. hafa álitið til þessa.