16.05.1950
Sameinað þing: 50. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í D-deild Alþingistíðinda. (3701)

159. mál, félagafrelsi

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Á þskj. 670 er till. frá ríkisstj. um fullgildingu á alþjóðasamþykkt um félagafrelsi og verndun þess. Ég vil geta aðdragandans eins og segir í grg., að Alþjóðasamband verkamanna og amerískra verkalýðssambandið beindu þeim tilmælum til sameinuðu þjóðanna, að þær tækju til meðferðar félagafrelsi verkamanna og atvinnurekenda, og var þessu vísað til Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Um þetta var fjallað í San Francisco 1948. Þar var fulltrúi frá Íslandi, og þar var gerð ákvörðun um verndun félagafrelsis, og er þetta birt með till. sem fylgiskjal og vísa ég til þess. Það þarf varla að taka það fram, að réttindi þessi eru tryggð í stjskr. og í l. um stéttarfélög og vinnudeilur. Það má því segja, að ef hv. Alþingi veitir ríkisstj. heimild til þessa, þá erum við aðeins að viðurkenna það, sem er. Ríkisstj. lítur svo á, að sjálfsagt sé að gera þetta. Fjögur ríki hafa fullgilt samninginn: Bretland, Noregur, Svíþjóð og Finnland. Samþykktin gengur í gildi 4. júlí n. k., og vill ríkisstj., að Ísland geti þá gerzt aðili að samþykktinni.

Ég vil ekki gera till. um það, að málið fari til n., enda væri það hið sama og að svæfa það, og tel ég það líka óþarft. Ég tel ekki þörf að fjölyrða frekar um þetta, enda tími orðinn naumur, þar sem óðum líður að þingslitum. Og óska þess, að málið nái afgreiðslu þegar á þessum fundi í sameinuðu Alþingi.