16.05.1950
Sameinað þing: 50. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í D-deild Alþingistíðinda. (3705)

168. mál, uppbætur á ellilífeyri o.fl.

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Þessi till. er einnig fram borin af ríkisstj. og er um það, að Tryggingastofnun ríkisins heimilist að greiða uppbætur á ellilífeyri, örorkulífeyri o. s. frv. frá 1. júlí 1949 til 31. des. 1950, eins og í till. segir. Það, að þessi till. er nú borin fram í lok þingsins, stafar af því, að sýnt er, að breytingarnar, sem fyrirhugaðar voru á alþýðutryggingalögunum, ná ekki fram að ganga á þessu þingi, en nauðsynlegt er að ákveða núna uppbæturnar, og í till. ríkisstj. segir, hversu háar þessar greiðslur megi vera. Það er 5% frá 30. júní n. k. til ársloka, en áður var búið að ákveða 10%. Ég vil taka fram hér, hve mörg prósent greiðslurnar eru ákveðnar. 15% er ákveðið með tilliti til þess, sem ríkisstj. hefur lagt til um uppbætur á eftirlaun og aðrar slíkar greiðslur, og miðast við uppbætur embættismanna. Þetta mun vera hv. þm. ljóst, og þarf ekki að fara um það mörgum orðum.

Hér eru ákveðnar 2 umr. um málið, en ég geri það ekki að till. minni, að málinu verði vísað til nefndar, en óska eftir, að forseti taki málið til lokaafgreiðslu sem fyrst á nýjum fundi.