16.05.1950
Sameinað þing: 50. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í D-deild Alþingistíðinda. (3706)

168. mál, uppbætur á ellilífeyri o.fl.

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Þetta mál, um uppbætur á ellilaun og örorkubætur, hefur allmikið verið rætt hér. Þm. sósíalista hafa borið fram till. um þetta, en þær hafa verið felldar, m. a. á þeirri forsendu, að endurskoðun tryggingal. mundi lokið þegar á þessu þingi. Nú er vitað, að tryggingalögin ná ekki fram, en í staðinn er þessi þáltill. lögð fram. Er hér gert ráð fyrir 5% uppbót. Ég verð að segja eins og mér finnst, að þessi uppbót sé skammarlega lítil til gamla fólksins og nái ekki nokkurri átt. Þetta fólk hefur sannarlega lágar tekjur, eða um 4.000 kr. á 1. verðlagssvæði og tæpar 3.000 kr. á öðru verðlagssvæði. Það þarf ekki að skýra það, hvernig þessu fólki muni ganga að lifa. Þess vegna leyfi ég mér að bera fram brtt., er fer í þá átt, að uppbótin skuli vera allt að 17%, og miða þá við sömu uppbót og opinberir starfsmenn hafa fengið.

Ég hygg, að Tryggingastofnun ríkisins hafi tilkynnt Alþingi, að hún hafi nægilegt fé til að greiða 10%, en ríkissjóður greiði síðan hitt, sem á vantar. Ég vil biðja forseta að leita afbrigða fyrir þessari brtt.