11.01.1950
Efri deild: 27. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í B-deild Alþingistíðinda. (371)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að benda á, að þegar hæstv. ráðh. fer að tala hér á móti föstu ábyrgðarverði á lýsi, þá gengur hann alveg ákveðið út frá því, að þetta gildi um sumarlýsið líka. Hann hefur ekki sjálfur trú á því, að ríkisstj. geti komið með till. fyrir 1. marz. Þetta sýnir, á hve sterkum rökum mín grg. er reist, en hún er sú, að því er ekki treystandi, að hæstv. ráðh. verði búinn að koma með endanlega lausn í málinu fyrir 1. marz. Hæstv. ráðh. upplýsir þetta sjálfur og gefur í skyn, að nauðsynlegt sé að koma með till. um að fá þetta sett á frílista. En ég hef skilið það svo, að þegar upptalning er í l., þá sé óleyfilegt að fara út fyrir það. Í þessari gr. er upptalning, þar sem talað er um það, hvað leyfilegt sé að leggja á háan gjaldeyrisskatt eða selja fyrir hærra gengi en venjulega. Hæstv. ráðh. hefur sýnt það, að hann vantreystir ríkisstj. til að koma með till. nógu snemma, og þess vegna telur hann nauðsynlegt að setja lýsið inn á frílistann, sem ekki þarf, ef þetta gildir aðeins 2 mánuði.