07.02.1950
Sameinað þing: 23. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í D-deild Alþingistíðinda. (3726)

70. mál, uppbætur á ellilífeyri o.fl.

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Það eru aðeins fá orð út af því, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði. Hann taldi, að með þessari till. fjvn. væri raunverulega verið að veita 20% uppbót á ellilífeyri, en þetta er alls ekki rétt, þar sem áður var lögbundið að greiða ellilífeyri með vísitölu 315 stig. Alþingi sá sér nefnilega ekki fært að fara eins langt niður með þessar greiðslur, þegar ákveðið var að nota fölsku vísitöluna 300 í sambandi við kaupgreiðslur, en svo á nú að fara að telja þennan mismun, sem Alþingi treysti sér þá ekki að taka, sem hluta af þeirri sanngjörnu kröfu, er nú hefur verið gerð í samræmi við það, sem opinberir starfsmenn hafa fengið, enda þótt þessi krafa um hækkunina á ellilífeyri væri þá talin sjálfsögð og réttmæt. Ef Alþingi ætlar að nota þessi rök til að mæta réttmætum kröfum um raunverulega 20% hækkun á ellilífeyri, þá tel ég, að það sé að ráðast á garðinn, þar sem hann er lægstur.