07.02.1950
Sameinað þing: 23. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í D-deild Alþingistíðinda. (3731)

70. mál, uppbætur á ellilífeyri o.fl.

Frsm. minni hl. (Ásmundur Sigurðsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af ræðu þm. Barð. (GJ). Hann vildi halda því fram, að við værum rökþrota í þessu máli, en raunverulega er það hann sjálfur, sem er rökþrota. Ég fæ ekki skilið þá staðhæfingu hans, að það sé minni trygging fyrir uppbótargreiðslu, ef aðaltill. verður samþ. Það ætti að minnsta kosti að vera eins auðvelt fyrir Tryggingastofnunina að greiða þann hluta, sem rökst. dagskráin gerir ráð fyrir. Þessi hv. þm. virðist líka hafa skipt um skoðun síðan hann ræddi hér um uppbótina til opinberra starfsmanna. Ég man ekki betur en hann teldi þá, að sama uppbót á ellilífeyri væri alveg sjálfsögð og ómögulegt að mæla henni í gegn, eins og rétt er. Nú virðist hann hins vegar hafa snúið baki við þeirri réttlátu skoðun sinni og vill lækka þessa uppbót.