07.02.1950
Sameinað þing: 23. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í D-deild Alþingistíðinda. (3733)

70. mál, uppbætur á ellilífeyri o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka minni hl. fjvn. fyrir undirtektirnar í þessu máli, en verð hins vegar að viðurkenna, að ég varð fyrir vonbrigðum með meiri hl. n. Ég hélt nefnilega, að n. teldi sig nokkuð bundna af afgreiðslu uppbótarinnar til opinberra starfsmanna. Að vísu var n. ekki öll fylgjandi því máli, en í rökunum fyrir því nál. var einmitt vísað til þess, að líkur væru til, að greiða yrði uppbætur til fleiri aðila og þar á meðal á ellilífeyri. Út af fyrir sig hafði ég ekkert við þá afstöðu n. að athuga, því að það getur verið eðlilegt og rétt, að slík n. reyni að spara fyrir ríkissjóð. En það fór nú svo, að þessi þáltill. var samþ., en nú mun reyna á, hvort meiri hl. Alþingis er eins frjálslyndur, þegar gamla fólkið á í hlut. N. hefur enn tekið sömu afstöðu til þessa máls og uppbótarinnar til opinberra starfsmanna, en ég vil leyfa mér að vona, að þm. telji sig ekki frekar bundna nú en við afgreiðslu þess máls. Þessi till. hefði áreiðanlega verið samþ. fyrir bæjarstjórnarkosningarnar, og ég satt að segja vona, að svo verði nú.

Hitt, sem hv. 4. þm. Reykv. minntist á, var vísitalan. Er honum farið að förlast minni, eða man hann ekki eftir því, er hún var bundin hér við 300 stig á Alþ.? Þá var háð hér harðvítug barátta við 1. umr. málsins af sósíalistum — og af þeim einum — gegn því, að vísitalan væri skorin niður, og vitnað í, að í öllum lögum og samningum um kaup og kjör væri gert ráð fyrir, að laun væru borguð út með fullri vísitölu. Vegna þeirrar óánægjuöldu, sem þessar aðfarir vöktu, og vegna þessa níðingsskapar við gamla fólkið var reynt að slaka til við 2. umr. Ríkisstjórn Alþfl. hrökk undan og hvarf að því við 2. umr. málsins að leggja til, að dýrtíðaruppbætur á ellilaun og örorkubætur yrðu borgaðar út með 315 stiga vísitölu, og linaði stjórnin þannig árás sína úr 300 í 315 stig. Hefði það verið vilji Alþfl. að sýna gamla fólkinu betri hug og meiri skilning, þá hefði sá hugur komið strax fram í verkinu við 1. umr., því að það var forsrh. þess flokks, sem flutti málið fram og hefði í upphafi gert ráð fyrir að borga gamla fólkinu út með 315 stigum, ef það hefði verið meiningin. Ég er því hræddur um, að hv. 4. þm. Reykv. sé farið að förlast minni. Hann mun nú reyndar þá hafa verið hér utan þings, og e. t. v. geri ég minni hans rangt til, e. t. v. hefur hann ekki fengið betri fréttir af þessu en orð hans gefa til kynna, e. t. v. hefur hann aðeins lesið um það í Alþýðublaðinu. Ég held undir öllum kringumstæðum, að hann ætti að láta okkur víta betur, sem stóðum í þessari baráttu, heldur en að vera að gylla framkomu Alþfl. Og er hv. þm. búinn að gleyma, að þá var gert ráð fyrir því hér af flokksbræðrum hans og öðrum formælendum vísitölubindingarinnar, að hin raunverulega vísitala kæmist brátt ofan í 315 stig og svo eftir stuttan tíma eða nokkra mánuði ofan í 300 stig? Og þáverandi hagfræðingur Alþfl. og forsrh. flokksins lýstu því yfir, að hér væri ekki nema um nokkurra mánaða fórn fyrir gamla fólkið að ræða, eða þá fyrir verkamenn og aðra launþega, og að þessi launaskerðing ætti að vera og yrði til þess eins að tryggja afkomuna í framtíðinni. Launaránið átti að vera nokkurs konar iðgjald til að tryggja atvinnu í framtíðinni, eins og það var fagurlega orðað. En staðreyndirnar í dag eru svo hins vegar þær, að vísitalan er komin upp í 340 stig og komið atvinnuleysi. Það er því ekki ástæða til eða situr ekki á Alþfl. að rifja upp þessi mál og þessa baráttu. Hins vænti ég svo, að þeir þm., sem samþykktu að borga gamla fólkinu út eftir 315 stiga vísitölu á sínum tíma, eftir að þeim hafði mistekizt að skammta þeim 300 stiga vísitölu, að þeir sjái nú sóma sinn í að veita gamla fólkinu 20% launahækkun, sem er jafnmikil hækkun og hæst launuðu starfsmenn ríkisins hafa þegar fengið. Það var óþarfi að meiri hl. hv. fjvn. að skera þetta við nögl sér, og vona ég, að till. okkar verði samþykkt eins og hún liggur fyrir.