15.02.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í D-deild Alþingistíðinda. (3736)

70. mál, uppbætur á ellilífeyri o.fl.

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja nokkur orð út af ummælum hv. 2. þm. Reykv. (EOl), er málið var rætt síðast. Hann ásakaði mig fyrir að vera ekki samkvæmur sjálfum mér við afgreiðslu þessa máls, miðað við afstöðu mína til þáltill., er heimilaði ríkisstj. að greiða 20% uppbætur á laun opinberra starfsmanna. Þetta er misskilningur hjá honum. Ég lýsti mig andvígan till. og benti á, að hún mundi leiða af sér aðrar kröfur, eins og sannast hefur, sbr. till. á þskj. 116, og að erfitt mundi verða að standa á móti þeim. Það er í samræmi við þetta, sem ég hef 1agt til, að þetta mál verði afgr. á þann hátt, sem ég tel tryggastan fyrir þetta fólk. — Hann sagði líka, að ég hefði sagt, að ég væri samþykkur því, að launal. yrðu endurskoðuð. Það hef ég aldrei sagt. Hins vegar lýsti ég yfir því, að launal. væru í endurskoðun hjá mþn., og þess vegna áliti ég, að ekki lægi á að samþykkja uppbæturnar fyrr en till. n. kæmu fram. Ég hef lagt til, að þetta mál verði afgreitt á þann hátt, er ég tel beztan, og vænti þess, að Alþ. fallist á þá afgreiðslu málsins.