19.04.1950
Sameinað þing: 39. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í D-deild Alþingistíðinda. (3749)

73. mál, tunnuverksmiðja á Akureyri

Frsm. minni hl. (Jónas Rafnar) :

Herra forseti. Þegar þessi till. var borin fram hér á hv. Alþingi, þá hafði síldarútvegsnefnd ekki hafið neinn undirbúning að starfrækslu tunnuverksmiðjunnar á Akureyri. En þá var vitað, að það átti að reka tunnuverksmiðjuna á Siglufirði og smíða þar 30–40 þús. tunnur. Þá var leitað til síldarútvegsnefndar, og þær upplýsingar fengust hjá henni, að ekki ætti að smíða neinar tunnur á Akureyri, því að það yrði nægjanlegt, sem smíða ætti á Siglufirði. Þá vil ég geta þess, að fyrir síldarútvegsnefnd lá áskorun frá Akureyrarbæ um það, að þar yrði hafin smíði á tunnum. Við hv. 5. landsk. þm. (ÁS) leggjum til, að þáltill. þessi verði samþ., og færum fyrir henni eftirfarandi ástæður: 1) Þegar ríkið keypti tunnuverksmiðjuna af Akureyrarbæ, var út frá því gengið af hálfu seljanda, að verksmiðjan yrði rekin á hverju ári og gæti þar verið um töluvert mikinn rekstur að ræða. Í þessu skyni veitti seljandinn ríkinu ýmiss konar fríðindi; verksmiðjan var undanþegin útsvarsgreiðslu um 10 ára skeið, afsláttur var veittur á rafmagni, og verksmiðjan fékk forgangsrétt að bryggju, sem hún stendur við. Út af ummælum hv. þm. Borgf. vil ég taka það fram, að þessi bryggja er eign Akureyrarbæjar og mun vera byggð af einstaklingi, en ekki fyrir ríkisfé að neinu leyti. Um margra ára skeið hafa tunnur verið smíðaðar á Akureyri, og þar munu tunnur fyrst hafa verið smíðaðar hér á landi. Tunnusmíði hefur líka verið töluverður liður í atvinnu bæjarbúa á Akureyri yfir vetrarmánuðina. Það hefði þá líka verið vægast sagt ólíklegt, ef bæjarstjórn Akureyrar hefði farið að selja tunnuverksmiðjuna og með því uppræta þá atvinnu í bænum, sem er meginstoð margra verkamanna yfir vetrarmánuðina. Nei, fyrst hlaut bæjarstjórnin að tryggja sér það áður, en hún seldi verksmiðjuna, að rekstri hennar yrði haldið áfram á Akureyri, svo að bærinn biði engan halla við þessa ráðstöfun. — 2) Við teljum, að síldarútvegsnefnd hafi ekki fært nægileg rök fyrir því, að hagkvæmara sé að smíða tunnurnar á Siglufirði, en á Akureyri, og því leggjum við til, að tunnur verði smíðaðar á Akureyri. Viðræður þær, sem fram hafa farið við stjórn síldarútvegsnefndar, hafa leitt í ljós, að ef eitthvað er hægt að finna að tunnunum frá Akureyri, stafar það af því, að stjórnin hefur ekki búið verksmiðjuna eins vel úr garði og átt hefði að gera. — Það hafði verið lofað að reisa tvö stálgrindarhús fyrir tunnugeymslu, en síðan varð það úr, að aðeins var keypt eitt, og nú er ákveðið, þótt undarlegt megi virðast, að reisa það á Siglufirði, enda þótt hægt sé að geyma þar allar tunnur, sem þar verða smíðaðar, í mjölhúsum síldarverksmiðja ríkisins. Á þessu sést, að síldarútvegsnefnd hefur ekki gert báðum verksmiðjunum jafnhátt undir höfði. — 3) Við teljum hagkvæmara að smíða tunnur á Akureyri vegna ódýrari flutningskostnaðar á þeim þaðan til ýmissa staða, þar sem síld er söltuð. Til Dalvíkur varð flutningskostnaður á tunnu t. d. kr. 1.25 og til Húsavíkur kr. 2.25, en að flytja tunnuna sjóleiðis til Húsavíkur kostaði á sama tíma kr. 5.00. Og það er óhætt að segja það, að það er mjög mikið hagsmunamál útgerðarmanna við Eyjafjörð, að tunnur séu smíðaðar á Akureyri. Enda sannar það líka bezt réttmæti á tunnusmíði á Akureyri, að s. l. sumar voru engar tunnur eftir á Akureyri, þó að annars staðar á landinu væru nægar birgðir.

Þetta mál hef ég rætt við sjávarútvegsmálaráðh. og talað um möguleika á því að hefja tunnusmíði á Akureyri, og tók hæstv. ráðh. málaleitun þessari vel, en málið var auðvitað borið undir síldarútvegsnefnd. Alllöngu síðar og eftir að þessi þáltill. kom fram — var mér tilkynnt, að síldarútvegsnefnd hefði ákveðið að láta smíða 10.000 tunnur á Akureyri, og er smíði þeirra nú hafin. Þrátt fyrir þetta tel ég rétt og sjálfsagt, að till. þessi fái þinglega meðferð, þó að samþykkt hennar geti ekki breytt neinu um rekstur tunnuverksmiðjunnar í vetur, en hins vegar gæti hún haft þau áhrif, að framvegis yrði smíðað meira af tunnum á Akureyri, en verið hefur nú síðustu ár.