11.01.1950
Efri deild: 27. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Það er nú orðið svo framorðið, að ég vil ekki lengja umr., en ætla aðeins að gera aths. — Hæstv. atvmrh. hafði það eftir mér, að ég hefði sagt, að hækkun á söluskattinum, eins og lagt var til í frv. upprunalega, væri í raun og veru ekki annað en gengislækkun. Og hann féllst á það, að þetta væri rétt. Ég minnist þess nú ekki, að ég hafi sagt þetta. En hins vegar er það rétt. Slík ráðstöfun sem þessi, sem þar var lögð til, að hækka söluskattinn í 30%, jafngildir gengislækkun, þ.e.a.s. hefur a.m.k. alla ókosti hennar, hvað sem öðru líður. En út frá þessu vildi hæstv. ráðh. draga þá ályktun, að öll hækkun á kaupgjaldi væri líka sama sem gengislækkun. Þetta er vitaskuld fjarstæða. Kauphækkanir geta haft þau áhrif að skipta þjóðartekjunum þannig, að þeir, sem vinna og framleiða, beri meira úr býtum, án þess að það þó eigi nokkuð skylt við gengislækkun. Hins vegar eru þær kauphækkanir, sem orðið hafa á undanförnum árum, þannig til komnar, að þær hafa verið gagnráðstafanir gagnvart verðhækkunum (Atvmrh.: Til að auka dýrtíðina.), sem stafa að miklu leyti af hækkuðum tollum og verzlunarokri. Og þessar hækkanir eru að verulegu leyti til komnar fyrir beinar aðgerðir stjórnarvaldanna. M.ö.o., það er hægt að kalla þessar kauphækkanir afleiðingar af eins konar gengislækkun, sem framkvæmd hefur verið og stöðugt hefur farið fram á undanförnum árum, afleiðingar og gagnráðstafanir gegn minnkandi kaupmætti krónunnar, sem vel má kalla gengislækkun.

En hvorki hæstv. ráðh. né hv. þm. Barð. (GJ) gátu svarað því, hvernig á því stendur, að hæstv. ríkisstj. hefur enn þá ekki lagt fram till. sínar um hina svo kölluðu framtíðarlausn vandamálanna, né heldur einu sinni fengizt til þess að skýra þinginu frá, hverjar þessar till. væru, sem hæstv. ríkisstj. samt sem áður telur sig hafa á hendinni. En við þessu hefði maður þó helzt vænzt svars.

En hv. þm. Barð. hélt því fram, að það væri ekki lengur til neinn markaður í heiminum fyrir meðalalýsi. Og í raun og veru hefur þetta mál, verðlag á lýsi og lifur, verið rætt á þessum grundvelli. Þetta held ég, að sé ekki rétt. (GJ: Ég sagði: með því verði, sem við þyrftum að fá fyrir það.) Það var einmitt þetta, sem hv. þm. Barð. var að taka fram, að ástæðan fyrir því, að lýsið hefði fallið í verði, væri sú, að ekki væri lengur hægt að selja það sem meðalalýsi, vegna þess að fundin hefði verið aðferð til þess að framleiða vítamínvörur, sem jafngiltu meðalalýsi. (GJ: Fyrir lægra verð.)

Ég held, að þessar fullyrðingar séu út í bláinn. Hvernig getur þessi hv. þm. ætlazt til þess, að þetta sé tekið gilt? Hann mun að vísu hafa heyrt einhvern orðasveim um nýjar aðferðir í Bandaríkjunum, og það verður til þess, að þessi hv. þm. kemur með fullyrðingar um, að ekki aðeins í Bandaríkjunum, heldur alls staðar í heiminum sé það svo, að ekki sé hægt af þessum ástæðum að selja meðalalýsi á svipaðan hátt og áður. (GJ: Þetta er staðreynd.) Þetta eru fullyrðingar út í bláinn, sem ekki verða teknar gildar. Þetta eru fullyrðingar, sem ég met einskis, þrátt fyrir það þótt Holland vilji ekki kaupa af okkur lýsi, nema til iðnaðar. Þar að auki hefur alltaf verið markaður fyrir meðalalýsi í Austur-Evrópu. Hv. þm. gat ekki heldur um tilraunir, sem gerðar hafi verið til þess að selja lýsið í þeim löndum. Á sínum tíma sóttu Rússar mjög fast eftir að fá meðalalýsi. En þá var það ekki laust fyrir, af því að þá vildu Ameríkumenn enn þá kaupa það. Ég held, að í þessu sem öðru séum við að súpa seyðið af þeirri pólitísku utanríkisverzlun, sem hefur verið rekin á undanförnum árum.