19.04.1950
Sameinað þing: 39. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í D-deild Alþingistíðinda. (3750)

73. mál, tunnuverksmiðja á Akureyri

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég verð að segja það, að mig furðar allmikið á afgreiðslu þessa máls hjá meiri hl. fjvn. og þó ekki minna á málflutningi meiri hl., því að hann byggir skoðun sína að verulegu leyti á bréfi frá formanni síldarútvegsnefndar, sem að mínu áliti eru ekki nein frambærileg rök fyrir niðurstöðu meiri hl.

Ég skal fyrst víkja að því, að meiri hl. fjvn. reynir að hrekja það, sem stendur í grg. till., að stjórn tunnuverksmiðja ríkisins hafi lofað, að á Akureyri skyldi tunnuverksmiðjan rekin, og skyldi þar vera um verulegan árlegan rekstur að ræða, eins og segir í kaupsamningnum. Meiri hl. heldur því fram, að þetta hafi ekki við rök að styðjast, og frsm. meiri hl. túlkaði þessa setningu eingöngu við þau forgangsréttindi að bryggju, sem gefin eru í samningnum. en að hún stæði ekki í neinu sambandi við það loforð, sem í samningnum felst. Það er rétt, að þessi setning um forgangsréttindi er í samningnum, og það er víst, að hún gildir jafnt um öll þau fríðindi, sem bæjarstjórnin ákvað, þegar ríkið keypti verksmiðjuna, og þessi fríðindi voru einmitt veitt til þess að létta undir með ríkinu, þegar það keypti. Þetta er staðreynd. Mér er vel kunnugt um þetta, því að ég átti sæti í bæjarstjórn, er verksmiðjan var seld ríkinu, og ég var í þeirri nefnd, sem hafði með málið að gera, og var vel kunnugt, hvað kaupanda og seljanda fór á milli. — Þótt meiri hl. nefndarinnar hafi ekki viljað taka þetta gilt, er ég sagði það, — en látum það gott heita, —hefur nefndin fengið fleiri vitni. Hún hefur fengið bréf frá bæjarstjóranum á Akureyri, sem er samhljóða mínu áliti, og ég vænti þess, að nefndin hafi ekki ástæðu til að rengja Stein Steinsen um þetta. Þeir hafa getað aflað sér fleiri upplýsinga um þetta og síðan dregið ályktun af því, sem sannast og réttast var. Og síðan voru gerðar ráðstafanir til að endurbyggja á Akureyri og Siglufirði. Þessi hús voru og það stór, að gera mátti ráð fyrir verulegri smíði. Einnig voru gerðar ráðstafanir til að fá viðbót við vélakostinn og auka þannig framleiðslugetu verksmiðjunnar. Allar framkvæmdir og viðbrögð ríkisvaldsins miðuðu að því, að tunnuverksmiðjan yrði starfrækt nyrðra og það á Akureyri. Hitt er svo annað atriði, þegar því er slegið föstu af meiri hl. fjvn., að bezt sé að halda áfram þeim ráðstöfunum, sem eigi raski grundvellinum og komi í bága við tilgang verksmiðjunnar í framleiðslu ódýrra og góðra síldartunna. Því hefur verið haldið á lofti, að tunnur frá verksmiðjunni á Akureyri væru verri og dýrari en þær, sem framleiddar væru á Siglufirði. Ég verð að segja, að hvað þetta snertir, þá held ég, að sé um sleggjudóm að ræða. Þótt góð tunnusmíði hafi verið á Siglufirði, þá hefur hún engu síðri verið á Akureyri. Hvað verðið snertir má benda á, að svo hagaði til 1947, að sú síldarútvegsnefnd, sem þá var við lýði, fór svo skynsamlega að, að efni til verksmiðjunnar barst ekki fyrr en komið var fram í júní 1947, en atvinna er þá nyrðra komin í fullan gang og menn hafa bundið sig í vinnu. Voru þá margir þeirra manna, sem þóttu hvað liðtækastir við þessa iðju, tunnusmíðina, búnir að ráða sig til starfa. Þá var gripið til þess ráðs að láta vinna á 2 vöktum og smalað mönnum, að vísu nokkrum vönum, en hluti þessara manna hafði aldrei komið að slíku verki áður. Með þessu liði, sem þannig var að drifið, var smíðin hafin. Þessar aðstæður leiddu það svo af sér, að afköstin urðu ekki eins mikil og vera bæri. Nú, svo vikið sé að Siglufirði, þar þátti ekki vera nein ástæða til þess að fara að sem á Akureyri. Þar voru þaulæfðir tunnusmiðir á dagvakt. Þessi munur á aðstæðum hlaut að koma í ljós, er verð tunnanna var aðgætt að smíði lokinni. Munurinn var samt ekki mikill; ég held innan við eina kr. á tunnu. Ég fullyrði, að ef unnið væri með svipuðu móti á Siglufirði og Akureyri, yrði enginn verðmunur. Smíðalaun eru ekki hærri á Akureyri en á Siglufirði. Menn skyldu því varast alla sleggjudóma í þessu efni. Eins er og að gæta, að flutningskostnaður tunnanna verður meiri á söltunarstöðvarnar frá Siglufirði en frá Akureyri. Nokkuð hefur verið talað um það, að ekki þyki hagkvæmt að smíða tunnur innanlands, vegna þess að þær tunnur séu dýrari en erlendar. Verð tunna, sem framleiddar voru 1947 á Siglufirði og Akureyri. varð 39–40 kr., þótt sumar þeirra hafi verið síðar seldar fyrir kr. 45,00 og geymslukostnaður og vátryggingarkostnaður hækkað verðið. Verð tunnanna, sem keyptar voru frá Svíþjóð 1947, sem voru gallaðar og reyndust illa, var kr. 37.00. Ég endurtek, að Svíþjóðartunnurnar voru slæmar. Samt reyndist verðmunurinn ekki meiri. Tunnur fengust einnig frá Tékkóslóvakíu, sem voru jafndýrar þeim innlendu. Frá Noregi hafa ekki fengizt tunnur síðan árið 1946, en þær kostuðu þá 32.00. Ég vildi leyfa mér að biðja hv. frsm. meiri hl. að nefna, hvaðan hægt sé að fá ódýrari tunnur nú. Það mundi gleðja mig, ef hægt yrði að fá ódýrar síldartunnur og auka framleiðslu netsíldar að mun frá því, sem nú er. Ég býst við, að verðmunurinn verði ekki mikill, en þjóðhagslega séð er hagkvæmara að greiða vinnulaunin í innlendum kr. en borga smíðalaunin í erl. gjaldeyri. Það er ekki síður nú, eftir að gengið hefur verið fellt, sem leiðir af sér, að sú upphæð hækkar, sem greiða þarf í vinnulaun fyrir hverja smíðaða tunnu í erlendum gjaldeyri. Þess er því að vænta, að Alþingi sýni tunnusmíðamálinu meiri skilning, en fram hefur komið til þessa. Ég leyfi mér að vænta, að þessi þáltill. verði samþ.