19.04.1950
Sameinað þing: 39. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í D-deild Alþingistíðinda. (3756)

73. mál, tunnuverksmiðja á Akureyri

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. um þetta mál. Það er sjáanlegt, að ekkert þýðir um það að þjarka. Ég mótmæli því, sem hv. frsm. meiri hl. n. hélt fast fram áðan, að ég hefði sérstaklega dregið það inn í umr., hvort og hversu mikill verðmunur væri á innlendum og erlendum tunnum. Ég hef ekki dregið það inn í umr., þó að það sé mikilsvert atriði og ástæða til að ræða það. En því var strax skotið fram við 1. umr. málsins af andmælendum þessa máls, að það væri ekki ástæða til að smíða tunnur á Akureyri né innanlands, vegna þess að þær væru dýrari. Og í fyrstu ræðu, sem haldin var um þetta mál í dag, kom hv. þm. Borgf. alveg sérstaklega inn á þennan verðmismun. Ég hef því ekki dregið þetta inn í umr., heldur hann, og ég er ekki að ásaka hann fyrir það, en ég hef andmælt þeim staðhæfingum, sem hér hafa verið fluttar um þennan geysilega verðmun, og komið með tölur, sem afsanna það, og þær hafa ekki verið hraktar. Ég vildi aðeins leiðrétta þetta.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Barð. sagði, að ég hefði átt að flytja hér allt aðra till. en hér liggur fyrir, till. um að breyta stj. tunnuverksmiðjanna, þá er því að svara, að vel getur verið, að ég hefði átt að gera það. En ég bjóst ekki við, að það mundi bera árangur. Ég var ákveðið á móti því, þegar það var samþ. hér á Alþ. að fela síldarútvegsn. stj. tunnuverksmiðjanna. Ég áleit þá og álit enn, að heppilegra fyrirkomulag sé, að tunnuverksmiðjurnar hafi sérstaka stj. og að síldarútvegsn. hafi ekki með það að gera. Það er alls ekki heppilegt, að síldarútvegsn. hafi með hvort tveggja að gera, síldarsöluna og innkaup á tunnum. Og væri nokkur von til þess að fá samþ. breytingu í því efni, mundi það gleðja mig, en ég hef ekki reiknað með því. Hins vegar flutti ég þessa þáltill. eftir að fram var komið, að þessi nýja stj. tunnuverksmiðjanna, síldarútvegsn., stóð ekki við þau loforð, sem fyrrv. stj. tunnuverksmiðjanna hafði gefið Akureyrarbæ. Og ég flutti þá till. um, að ríkisstj. hlutaðist til um, að síldarútvegsn. uppfyllti þessi loforð. Ég gerði ekki ráð fyrir fjárútlátum í sambandi við samþykkt hennar, og þess vegna lagði ég til, að hún færi til allshn., en ekki fjvn. Hitt var gert, að vísa henni til fjvn., en ekki eftir minni till. Ég álit, að ekki þurfi að fylgja því nokkur fjárútlát að smíða tunnur á Akureyri, umfram það, sem það kostar að smíða þær á Siglufirði. (GJ: Þá getur hv. flm. samþ. dagskrána.) Nei, vegna þess að í henni felst ekki aðeins það, að það eigi að framleiða tunnur sem beztar og ódýrastar, heldur er því líka slegið föstu, að það sé ekki hægt að gera á Akureyri. (GJ: Nei. nei.) Jú, það felst í dagskránni, að með því að stuðla að því; að tunnur séu smíðaðar á Akureyri, komi það í bága við það, að þær séu sem beztar og ódýrastar. Það er niðurstaða hv. fjvn., og sú niðurstaða er byggð á röngum forsendum. Það hef ég sannað með tölum í þessum umr., sem ekki hafa verið hraktar, og þess vegna er niðurstaða n. röng, að hún er byggð á röngum forsendum.