19.04.1950
Sameinað þing: 39. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í D-deild Alþingistíðinda. (3758)

73. mál, tunnuverksmiðja á Akureyri

Steingrímur Aðalsteinsson:

Það er aðeins athugasemd út af ágreiningi okkar hv. þm. Barð. um það, hvernig beri að skilja þessa dagskrártill. Það má vel vera, að hann leggi þann skilning í hana, sem hann vill vera láta, en ég get ekki lagt þann skilning í hana. Þáltill. felur það í sér, að Alþ. hlutist til um það, að tunnurnar séu smíðaðar á Akureyri. Meiri hl. hv. fjvn. leggur til, að þeirri till. sé vísað frá vegna þess, að ef þáltill. væri samþ., þá væri Alþ. farið að gera ráðstafanir, sem raskað gætu þeim grundvelli starfseminnar, sem í fyrri hl. er talað um. Mér er ómögulegt að skilja þetta öðruvísi en hv. fjvn. sé með því að lýsa því yfir og Alþ. samþ. það, að með því að smíða tunnur á Akureyri sé verið að raska þeim grundvelli starfseminnar, að smíða tunnur sem beztar og ódýrastar. (GJ: Þetta er hreinasti misskilningur.) Ég skil þá ekki íslenzkt mál, og ég get ekki skilið þetta á annan veg, en ég mótmæli þessu alveg. Ég skal ekki ræða það meira en orðið er, t. d. hvaða aðstöðu Akureyrarbær hefur til þess að reka tunnuverksmiðjuna sjálfur: Það eru ýmsar ástæður, sem valda því, að það er allt annað fyrir Akureyrarbæ, sem ekki hefur neitt vald á innflutningi á tunnum, að reka tunnuverksmiðju á Akureyri, heldur en fyrir ríkið, sem hefur vald yfir innflutningi á tunnum og tunnuefni. Ég skal sem sagt ekki eyða tíma í að rökstyðja þetta frekar, en ég ætla, að það liggi í augum uppi, að það er ekki uppfylling á þeim loforðum, sem gefin voru, þótt nú sé boðið að skila verksmiðjunni til baka, heldur það gagnstæða.