08.12.1949
Sameinað þing: 9. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í D-deild Alþingistíðinda. (3783)

56. mál, tjón bænda vegna harðinda

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég þarf fáu við að bæta það, sem nú hefur verið sagt. Það er mikið um ríkisstyrki og kreppuhjálp nú á síðustu árum, og því er ekki óeðlilegt, að hv. þm. stanzi við þessa till. og athugi, hvort þessarar hjálpar sé þörf. Ég fyrir mitt leyti vil segja það við hv. þm. af náinni kunnáttu á, hvernig harðindin voru s. l. vor, og eftir dómi elztu manna, að þá hafa ekki komið önnur eins harðindi s. l. 70 ár. Það var þannig, eins og lýst var af einum þm., að snjórinn lá á túnum fram í júlímánuð, og meira að segja, þegar við vorum að ferðast um kosningarnar, þá lá sums staðar snjór, þar sem áður voru slægjur, og þannig var það norðarlega í Strandasýslu. Þess vegna eru hér svo óvenjulegir hlutir á ferðinni, að þó að mikið sé veitt í styrkjum og kreppuhjálp, þá er áreiðanlega ekki óeðlilegt, heldur þvert á móti eðlilegt, að hér sé hlaupið undir bagga, því að það er þannig á sumum svæðum, þar sem ég þekki til, að fóðurbætir og hey hefur verið keypt fyrir 5.000–11.000 kr., þar sem búin eru ekki stór og gera má ráð fyrir, að árstekjurnar af búinu séu jafnvel ekki eins miklar og þurfti að leggja út fyrir fóðurbæti og hey. Ég sé ekki ástæðu til að rekja það hér, við hvað þetta fólk, þessir bændur, hefur átt að stríða. En það er áreiðanlegt, að við gerum okkur það tæplega ljóst, hvaða áreynslu það kostar, þegar harðindin eru slík, að bóndinn verður að ganga um hagana með hníf til að skera annan tvílembinginn, af því að ekki er hægt að halda lífinu nema í öðru lambinu, og stundum kom fyrir, að allt fór, bæði á og lömb. Hér er þess vegna óvenjulegt atriði á ferðinni, og það er fullvíst, þar sem bændur geta ekki risið undir þessu, að það er stórkostlegur hagur fyrir þjóðfélagið að leggja eitthvað fram til til þess að koma í veg fyrir almenna uppflosnun á sumum svæðum í landinu. Tjónið er geysilega mikið, og hefur verið gert minna úr því í ræðum, sem hér hafa verið fluttar, heldur en var raunin, því að það er í þó nokkuð mörgum hreppum í landinu þannig, að það hefur farið helmingur af lömbum, og er það ekki smávægilegt tjón, þegar þess er gætt, að miklu er kostað til að halda lífinu í hinum helmingnum og forða búpeningnum.

Ég ætla ekki að ræða frekar um þetta, vegna þess að ég geri ráð fyrir því, að þm. geri sér ljóst, hvað óvenjuleg harðindi eru hér á ferðinni. Hér er ekki verið að skapa almennt fordæmi, þó að hlaupið sé undir bagga undir slíkum kringumstæðum, því að hér eru aðstæðurnar svo óvenjulegar, að slík harðindi hafa naumast komið fyrir mikið á annan mannsaldur. En út af því, sem hér var sagt af tveimur þm., hv. 1. þm. Skagf. (StgrSt) og þm. Mýr. (BÁ), um vinnu Búnaðarfélagsins og rn. í því að dreifa fóðurbæti, þá vil ég í framhaldi af því haka undir þakklæti fyrir það, hvað þessir aðilar gerðu mikið til þess að sjá um, að fóðurbæti og heyi væri dreift út um landið, og að þeir gerðu það, sem í þeirra valdi stóð. En ég sé ástæðu til að vekja athygli á öðru, þegar við heyrum á ný um hafís fyrir vestan land. Þegar fóðurbætirinn kom til landsins með „Tröllafossi“, og mér er það vel minnisstætt, af því að ég stóð í því, eins og aðrir þm., að koma þessum fóðurbæti til þeirra, sem á honum þurftu að halda, en þá um kvöldið voru veðurfregnirnar þannig, að það væri stormur fyrir Norður- og Vesturlandi og hafísinn örfáar mílur undan Horni, og eftir vindstöðunni var allt útlit fyrir, að fylltist af ís fyrir öllu Norðurlandi, — þá var það, að ég talaði við reyndan mann um þetta, og hann sagði, að þetta færi eftir því, hvernig straumarnir yrðu. Hefði ísinn orðið landfastur, þá hefði engum forða verið hægt að koma til Norðurlandsins um langan tíma, m. ö. o., það hefði orðið almennur fellir á stórum svæðum á Norðurlandi, ef svona hefði farið. Ég veit, að það var naumur gjaldeyrir, og það þurfti að kaupa mikið af fóðurvörum, og kannske er þarna engan um að saka. En þetta er staðreynd, sem við megum gjarnan muna. Það vildi svo heppilega til, að ísinn þokaðist frá landi og það var hægt að senda skip norður fyrir land og það komst sína leið, en það gat eins farið á hinn veginn. Þetta minnir okkur á það, að það má aldrei koma fyrir, að ekki séu fyrri hluta vetrar komnar fóðurvörur á Vesturland og Norðurland, sem séu nægilegar birgðir fram á vorið, ef illa tekst til. Ef það er ekki gert, getur alltaf farið svo, eins og vel gat farið s. l. vor, að í stað þess að ísnum svifi frá, þá slái honum inn á firðina og loki öllum höfnum fyrir Norður- og Vesturlandi og ekkert sé yfirvofandi nema fellir.

Ég vil svo að lokum taka undir það, sem hv. 1. þm. Skagf. minntist hér á, að það ríður mjög mikið á því, að þessari till. sé hraðað, og í rauninni þarf þessi aðstoð að koma fyrir áramót, eins og hann minntist á. Ég talaði fyrir tveimur dögum við oddvitann úr einum þeirra hreppa, þar sem íbúarnir urðu fyrir miklu tjóni, og hann lagði áherzlu á það, að þessi greiðsla gæti komið fyrir áramót, og held ég, að hann sé sá maður, sem sízt af öllum sé heimtufrekur og minnst með barlóm allra manna. Þetta var oddviti Árneshrepps, Pétur Guðmundsson í Ófeigsfirði. Þessir menn eru aðþrengdir fjárhagslega, og vona ég, að það sé hverjum þm. ljóst, þegar athugað er, við hvað þeir áttu að búa s. l. vor.