08.12.1949
Sameinað þing: 9. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í D-deild Alþingistíðinda. (3784)

56. mál, tjón bænda vegna harðinda

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil sízt af öllu draga úr því, hvað mikið tjón bændur hér á landi hafi beðið við þau miklu og nokkuð óvenjulegu harðindi, sem geisuðu hér á s. l. vori. Að vísu var það svo, að sumarið áður var nokkuð gott og heyföng því í betra lagi og verkun, en ég vil þó sízt af öllu draga úr því, að það tjón, sem margir bændur hafa orðið fyrir vegna vorharðindanna, sé mikið og mjög tilfinnanlegt. En það er nú einu sinni svo í okkar kæra landi, að það eru ýmis atvik, sem valda því, að vissar stéttir verða fyrir þungum búsifjum, og ef bætt er upp einni stétt, þá geta einnig komið til greina uppbætur til annarrar. Ég vil minna hv. þm. á það, sem sjálfsagt allir muna, að undanfarin 4–5 ár hefur verið svo mikill aflabrestur á síld, að þeir skipverjar, sem stundað hafa þann atvinnurekstur, hafa komið heim frá vinnunni til fjölskyldna sinna svo að segja alveg fjárvana og jafnvel hlaðnir skuldum. Það er svo, þótt lágmarkstrygging fyrir sjómenn, sem síldveiðar stunda, sé frá 510 kr. og upp í 610 kr. á mánuði að viðbættri verðuppbót, að það er létt í vasa fyrir fjölskyldumenn, sem kannske 4–5 sumur hafa stundað þessa atvinnu og koma heim eftir 2 mánuði allslausir vegna aflabrests. Síldveiðar hafa brugðizt 4–5 seinustu árin og mjög alvarlega, og ég held, að fá skipin hafi gert meira en að ná því veiðimagni, sem samsvarar til þóknunar, sem skipverjum var heitið sem lágmarksuppbótum, en það er, eins og ég sagði áðan, frá 510–610 kr., eða frá 1530–1830 kr. á mánuði, fyrir utan það, að skipverjar verða að leggja sér til allt fæði og útbúa sig til þessarar atvinnusóknar. Við skulum hugsa okkur fjölskyldufeður, sem hafa stundað síldveiðar 4 undanfarin ár, 2–3 mánuði á sumri, og komið heim hvert skipti til fjölskyldu sinnar, annaðhvort í Reykjavík eða annars staðar á landinu, allslausir svo að segja, hversu það er þungbært fyrir þá menn, sem fyrir þessu hafa orðið. Ég vildi þess vegna sérstaklega vekja athygli á því, að ef Alþ. færi inn á þær brautir að heita einstökum atvinnurekstri ákveðnum uppbótum vegna óhappa eða harðæris, sem komið hefur fyrir, þá verður, til þess að ná jafnvægi og réttlæti, að líta í fleiri áttir. Ofan á þetta, sem sagt var um síldveiðimenn, bætist, að þeir fengu þetta litla kaup sitt seint og illa, og í umr. í Nd. í gær um frv., sem þá lá fyrir, hélt einn þm. fram, að verulegur hluti af kaupi síldveiðisjómanna væri ógreiddur að mestu leyti, en lægi tryggingarlaus frá s. l. sumri. Það þarf að undirstrika það fyrir þingheimi, hversu tilfinnanlegt það er fyrir 3.000 manns, sem undanfarin 4–5 ár hafa leitað sér atvinnu og fjölskyldum sínum farborða, að koma heim til fjölskyldnanna allslaus á eftir, og það má nærri geta, að margur fjölskyldumaður hefur orðið að stofna til skulda út af þessu til þess að geta haft nægilegt til heimilisins. En ég vil undirstrika það, að ég vil á engan hátt draga úr því mikla tjóni og óþægindum, sem kom fyrir bændur vegna hins harða vors, þó að sem betur fer, eins og hv. þm. Str. tók fram, það sé kannske eins dæmi um tugi ára, að jafnhart vor hafi borið að höndum. Þess vegna hefur afkoma margra bænda verið góð undanfarin ár, og þess vegna hefur verið árgæzka í sumum sveitum, og einkum vegna þeirrar aðstöðu, sem ríkisvaldið og löggjafarvaldið hefur á margan hátt skapað íslenzkum atvinnustéttum. En það er ekki ein stétt, sem heldur uppi íslenzku þjóðfélagi, heldur fleiri stéttir, og það ber að líta á mál þeirra, ekki hvað sízt sjómanna, þegar þeir verða fyrir því ár eftir ár, sem leita eftir þessari atvinnu, að koma heim til heimila sinna allslausir, og það má nærri geta, að það muni vera þeim allþungt. Ég vil vekja athygli á þessu, og mér þykir ekki ósennilegt, að fram komi hér á Alþ. viðaukatill. um það, að einnig verði safnað skýrslum um afkomu síldarsjómanna undanfarin ár og tekið til athugunar, á hvern hátt hægt sé að bæta þeim upp þá óendanlega slæmu afkomu, sem þeir hafa orðið fyrir vegna síldarbrests undanfarin ár.