08.12.1949
Sameinað þing: 9. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í D-deild Alþingistíðinda. (3787)

56. mál, tjón bænda vegna harðinda

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð, enda er búið að segja hér margt af því, sem ég vildi taka fram. Ég vil aðeins benda á það, að eins og innflutningi fóðurbætis til landsins hefur verið háttað undanfarin ár, þá hefur bæði bændum og verzlunum verið ómögulegt að tryggja sér fóðurbæti að haustinu, eins og þó þarf að vera.

Nú í haust og í vetur hefur ekki verið til fóðurbætir nema frá degi til dags. Sá, sem hefur viljað tryggja sér fóðurbæti, sem nægði fram eftir vetri eða allan veturinn, hefur ekki fengið nema skammtaða hungurlús, mest til vikunnar eða hálfs mánaðar. Það er fyrst og fremst nauðsynlegt að tryggja, að fóðurbætir sé nógur þar, sem íshafnir eru, svo að menn verði þar ekki í vandræðum, ef ís ber að höfnunum, og til þess þarf að breyta innflutningnum verulega frá því, sem nú er. Þegar fóðurbætirinn kom í fyrra, voru aðeins 3 tonn til í einni höfn og 5 tonn í annarri af mat alls handa mönnum öllum og skepnum. Að þessum höfnum lágu stór héruð, en ís var þá á næstu grösum, og þurfti ekki nema eina nótt til þess að ís kæmi að landinu, ef svo hefði viðrað. Þetta er ástand, sem er langt fyrir neðan það, sem við getum sætt okkur við að sé. Og þó að fóðurbætirinn sé kominn á hafnirnar, eins og varð í vor, þá var tíðarfarið þannig, að þeir, sem áttu langt að eða yfir fjöll að sækja, komu honum ekki til sín. Menn gátu sumir ekki náð í fóðurbæti, þó að nóg væri til af honum, af því að yfirvöldin höfðu ekki veitt leyfi fyrir innflutningi hans svo snemma, að hægt væri að ná í hann þegar með þurfti og hægt var að draga hann að sér. Eingöngu þess vegna misstu sumir bændur fé sitt að þeir fengu ekki fóðurbæti, þegar þeir gátu náð í hann. Þessu ástandi þarf að breyta þannig, að fóðurbætirinn komi það snemma á hafnirnar, að menn geti dregið hann að sér í tæka tíð. Þetta legg ég mikla áherzlu á. Tjónið, sem bændur urðu fyrir á s. l. vori, er ákaflega mikið. Ég veit ekki, hvort ég á að nefna einstök dæmi. Það er t. d. einyrkjabóndi, sem á 5 börn og hefur undanfarið lifað á 100 kindum og 2 kúm. Venjulega hefur þessi bóndi lagt inn 80 til 90 lömb, en í haust voru þau aðeins 19. Hvernig er þetta, þegar það er borið saman við tryggingu síldveiðisjómanna? Þetta er öll ársvinna einyrkjans og allt, sem hann á. Ég skil ekki, hvernig menn láta sér detta í hug, að á tveggja mánaða vinnu á ári sé hægt að lifa allt árið. Það skildist mér helzt á hv. 8. landsk. þm. (StJSt). Það er kannske til svartamarkaðsbrask, sem getur gefið mönnum á þann hátt nægilegar tekjur yfir árið, en atvinnuvegir okkar eru yfirleitt ekki þannig, að slíkt sé hægt.

Það, sem ég tel langverst í þessu, er, að það skuli ekki nú þegar vera búið að afla þeirra upplýsinga, sem hér hefur verið farið fram á, að aflað yrði, því að ýmsir menn hafa til þess að geta staðið við skuldbindingar sínar orðið að lóga af fjárstofni sínum, og er það þess vegna mjög tvísýnt, þó að hjálp komi hér eftir, að þeir geti haldið búum sínum áfram. Vitanlega átti að gefa þessum mönnum von um aðstoð í tæka tíð, svo að þeir gætu búið sig undir framtíðina á þeim grundvelli. Ég er þakklátur fyrir, að þessi till. er fram komin, en mjög óánægður yfir því, að ríkisstj. var ekki búin að afla upplýsinga um þetta efni, svo að þessi harðindi hefðu ekki þurft að verða til að hrekja menn frá búum sínum, en einhverjir bændur verða að hrekjast frá búum sínum, vegna þess að þetta er svona seint gert. Annars gengu þessi harðindi í vor ákaflega misjafnt yfir. Það mun hafa verið upp undir einum þriðja minna slátrað af lömbum í sumum sláturhúsum í haust en vant er og bara vegna þess, sem drapst í vor. Og þegar farið er að athuga þetta hjá einstaka bændum, þá áttu sumir þeirra um einn fjórða og neðan við einn fjórða af venjulegu lambainnleggi, vegna þess hve lömbin féllu í vor. Hér er því um geysilega mikinn missi að ræða hvað innlegg snertir hjá bændum, og því miður eru það allmargir bændur, sem ekki hafa neitt nálægt því innlegg fyrir sinni ársúttekt. Eins og þáltill. er orðuð, á n., sem fær þetta mál til meðferðar, ekki að athuga það, sem ég minntist á áðan, sem sé innflutninginn á fóðurbæti og hve aðkallandi er að flytja hann inn á hagkvæmum tíma. Ég vildi því mælast til þess, að hún athugi þá möguleika mjög vel. Þá fyrst, er bændur eiga þess kost að fá fóðurbæti þegar þeim er hentugast, getum við gert þá kröfu til þeirra, að þeir afli sér hans og hafi hann til. En þegar verið er að fyrirbyggja með opinberum ráðstöfunum, að bændur geti náð í fóðurbæti, þá er erfiðara um eftirleikinn, ef illa fer.