08.12.1949
Sameinað þing: 9. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í D-deild Alþingistíðinda. (3789)

56. mál, tjón bænda vegna harðinda

Steingrímur Steinþórsson:

Herra forseti. Ég hef heyrt, að aths. hafi komið fram um það frá hv. 1. þm. N-M. (PZ), að Búnaðarfélag Íslands hafi vanrækt að safna skýrslum um þessi efni. (PZ: Ríkisstj.) Ef einhvern er að saka um þetta, þá er það Búnaðarfélagið, því að það hafði með þessi mál að gera. Ég lýsti því í minni ræðu, hvaða afstöðu Búnaðarfélagið hefði tekið. Það taldi, að ástandið væri ekki svo alvarlegt yfir landið allt, að ástæða væri til allsherjar skýrslusöfnunar um þessi efni. Það hefur haft samband við menn í héruðum, þar sem ástandið var það alvarlegt, um að þeir létu sjálfir safna skýrslum heima fyrir, hvað þetta snertir. Ef forustumenn í sveitum vilja ekki sinna slíku, þá tel ég ekki um mikla þörf að ræða í þessum efnum. Svo að ég tel, að af hálfu Búnaðarfélagsins hafi verið gert alveg nægilega mikið í þessum efnum allt til þessa. Hins vegar vildi ég taka það fram út af ummælum í ræðu hv. 4. þm. Reykv. (HG) áðan, að hann væri að undrast yfir því — og fannst mér sá tónn í ræðu hans —, að hér væri um einhverjar ölmusugjafir til bændastéttarinnar að ræða, hvað snerti efni þessarar till. og þá aðstoð, sem hugsanlegt er að veita vegna þeirra óvenjulegu harðinda, sem voru í vor. Talaði hann um í því sambandi, að mest væri um það vert fyrir bændur að koma fóðurtryggingarmálum sínum á sæmilega öruggan grundvöll. Þetta er alveg rétt, en ég vil halda því fram, að fóðurtryggingarmál bænda séu yfirleitt komin á sæmilega öruggan grundvöll. Mér vitanlega hefur ekki komið fyrir síðustu áratugi, að verulegur misbrestur hafi orðið með það eða nokkur skakkaföll hafi orðið á búfé vegna þess, að fóður hafi vantað. Það hefur komið fyrir einstaka ár, að svo mikil harðindi hafa komið í einstöku héraði landsins, að þurft hefur að gera ráðstafanir til þess að útvega fóður í bili. En yfirleitt má segja, að fóðurtryggingarmál bænda séu komin á sæmilega öruggan grundvöll. Ég benti áðan á veikasta hlekkinn í því sambandi, en það er, að mjög almennt er, að búfjáreigendur í kaupstöðum birgi sig ekki upp með fóðurbirgðir. Þetta eru ekki bændur, sem hér eiga hlut að máli, en vitanlega búfjáreigendur, og þarf að taka þá sömu tökum og aðra. Vandræðin í vor komu fyrst í ljós í kaupstöðum og þorpum eða stöfuðu af því, að bændur höfðu selt of mikið til þorpanna í þeirri von, að harðindin yrðu ekki svona langt fram í júlímánuð. Ég skal taka undir það með hv. 4. þm. Reykv., að nauðsynlegt sé að athuga þetta og lagfæra það, en hér er ekki fyrst og fremst um sök sjálfra bændanna að ræða, heldur stafar þetta af því, að menn á þessum stöðum hafa treyst á þetta, vegna þess að alltaf hefur verið hægt að fá fóður keypt í nálægum sveitum. Þetta er mjög til aðvörunar fyrir okkur, sem eigum að sjá um fóðurgæzluna, að þetta sé tekið föstum tökum og þess sé gætt, að búfjáreigendur á þessum stöðum setji vel á, á haustnóttum og treysti ekki á, að þeir geti fengið keypt fóður hjá Pétri og Páli handa sínu búfé.

Þetta vildi ég taka fram, en sé ekki ástæðu til að segja fleira um þetta mál nú.