14.12.1949
Sameinað þing: 10. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í D-deild Alþingistíðinda. (3799)

62. mál, kaup sjómanna síldveiðiflotans

Erlendur Þorsteinsson:

Herra forseti. Það er eðlilegt, að þingið hlutist til um þetta mál, ef svo er, að sjómenn hafa ekki fengið kaup sitt greitt fyrir síðustu síldarvertíð. Má vera, að hv. flm. sé kunnugra um þetta en öðrum, þar eð einn þáttur í atvinnu hans er að innheimta skuldir sem þessar. Í fyrra haust hafði hann nokkuð um þetta að segja og með sérstökum hætti, því að fjöldi manns kom til skrifstofu hans, þegar verið var að undirbúa innlausn sjóveðanna í skilanefnd, en þessar skrifstofur voru ófúsar að falla frá kröfum sínum um há innheimtulaun. En ég vil ekki væna hv. flm. um það, að hér sé um sýndartill. að ræða, en fljótlegra hefði verið fyrir þessa hv. þm., sem sitja í Nd., að flytja brtt. við 3. gr. frv. til l. um viðauka við l. nr. 100 1948, um dýrtíðarráðstafanir, því að það er stjfrv. Og þar eð sá ráðh., sem stóð að þeim l., er enn í núverandi stjórn, mun hann leggja áherzlu á, að það frv. nái fram að ganga, og því er vænlegra, að bætt verði inn í þau l. og lagt fyrir skilan. að framkvæma þetta. Enn má benda á það, að samtök útvegsmanna hafa beint þeirri áskorun til Alþ., að þessi breyt. verði gerð á l., og talið það vænlegast fyrir þá, sem hlut eiga að máli. Annars er rétt að geta þess, sem að vísu kom fram hjá hæstv. atvmrh., að ekki hafa borizt neinar beinar kröfur um innlausn sjóveðanna. En vakið hefur verið máls á því, að rétt sé að fá úr því skorið, hvort nú sé ekki þörf á því að hlaupa undir bagga sem áður, og n. taldi á fundi sínum þann 23. nóv. að einhverju leyti þörf á því. Þess vegna má gera ráð fyrir því, að þessi mál verði fljótar afgreidd með því að hraða þessu stjfrv., svo að skilan. geti sinnt störfum sínum samkv. l.

Ég skal svo aðeins leyfa mér að benda á, þótt áhættusamt sé að hvetja þjóðina til að stunda síldveiðar, að þá er líka áhætta í því fólgin að sjá eigi um, að nægur floti sé á veiðum til þess að tryggja síldarverksmiðjunum nægilegt hráefni. Nokkur vafi er á, þótt meðalaflaár hefði verið í sumar, hvort skipin hefðu fullnægt hráefnisþörf verksmiðjanna. Þetta veit hv. flm., og nokkrar verksmiðjanna, þ. á m. á Siglufirði, voru í vandræðum með að fá þann skipastól, er þær vildu fá og töldu fullnægjandi. Má gera ráð fyrir því, að bundnar muni vera í verksmiðjurekstrinum upp undir 80–100 millj. kr. Og ætti að miða verð allra verksmiðjanna í landinu við byggingarkostnaðinn 1946 á Siglufirði og Skagaströnd, þá mundi upphæðin verða hærri. Vafasamur ábati yrði og af því, ef draga á úr mögulegum afla síldveiðiskipanna og láta þessi atvinnutæki liggja ónotuð af þeim ástæðum. Hinu er ekki hægt að gera ráð fyrir, að síldveiðarnar bregðist. En það vænti ég að sé ljóst, m. a. hv. flm., að því harðar kemur þessi skattur niður á útveginum í heild, þeim mun minni hráefni sem berast. Ég geri einnig ráð fyrir, að hv. flm. þætti goðgá af bönkunum, ef gott ár kæmi til síldveiða og í ljós kæmi, að skipin gætu ekki stundað veiðar vegna þess, að þeim væri ekki hjálpað.

Annars má geta þess varðandi innlausn sjóveðanna, að það er ekki algildur mælikvarði á reikningana, þó að þeir séu samþykktir af útgerðinni. Það sýnir eingöngu, að reikningarnir séu réttir. Hins vegar var ljóst í fyrra, að allmargir útgerðarmenn ráðstöfuðu verði sumaraflans til annars, en að innleysa sjóveðin. Útgerðin var í fjárþröng, en hitt er vafasamt, hvort henni sé heimilt að taka aflahlut skipverja til eigin nota eða greiðslna annarra skulda, sem stofnaðar voru áður. Þetta nær aðeins til þeirra skipa, þar sem aflahlutur sjómanna er hærri, en greiðslutryggingin. En sé hann lægri, þá er minna fé til að greiða hana. Þetta kemur til álita við innlausn sjóveðanna. Ef til vill er rétt að setja meiri hömlur fyrir því, að útgerðarmenn geti ráðstafað fénu til annars, en að greiða sjómönnum sínum laun. — Ég mun fylgja því sem fastast, að innlausn sjóveðanna sé hraðað, en tel heppilegast að fá breyt. á áðurgreindum l. og fá henni hraðað í gegnum deildina.