14.12.1949
Sameinað þing: 10. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í D-deild Alþingistíðinda. (3801)

62. mál, kaup sjómanna síldveiðiflotans

Flm. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Ég er sammála hæstv. ráðh. um það, að hæstv. ríkisstj. geti ekki og megi ekki draga það lengi að leysa þennan vanda, og vart getur það gengið lengur, að sjómenn verði dregnir á langinn með að fá kaup sitt greitt, og væri því eðlilegast að fela bönkunum að borga út kaup það, sem sjómenn eiga inni frá síldarvertíðinni síðastliðið sumar. Hæstv. sjútvmrh. fór nokkuð út í þetta í ræðu sinni, og er ekki ástæða til að ræða þetta frekar nú né stefnu þá, sem ríkt hefur í sjávarútvegsmálum, fyrr en við 2. umr. Ég vil samt taka það fram nú, að þar sem nokkuð hefur verið um það talað, að nauðsynlegt væri að lækka gengi íslenzku krónunnar til að rétta við útveginn, þá er það mín skoðun og skoðun Sósfl., að gengislækkun mundi leiða af sér slíkar búsifjar fyrir þjóðina, að ég tel slíka leið ófæra. Þó að slík leið verði farin, þá býst ég við, að fljótt mundi sækja í sama horfið og vandamál útvegsins og annarra atvinnuvega verða jafnerfið og nú. Ég held, að höfuðmeinið sé, eins og ég hef minnzt á fyrr, að útvegurinn framleiðir gjaldeyri fyrir þjóðarbúið og verður oft fyrir miklum töpum í aflaleysisárum við þetta starf, en svo koma aðrir aðilar, sem hafa rétt til að hagnýta sér og eyða gjaldeyrinum, og græða á honum í sambandi við innflutningsverzlunina. Í þessum skipulagsgöllum liggur meinið, og það verður að laga þetta. Á þetta hefur fyrr verið drepið hér á Alþ. Þessi skipun var gerð með lögum árið 1934, en það er mál, sem ég fer ekki út í að þessu sinni.

Hv. 6. landsk. þm. (ErlÞ) talaði hér áðan með þeim hætti, að hann lét í það skína, að hann einn hefði vit á þessum málum, og engu líkara var en hann væri á framboðsfundi norður á Siglufirði. Hann ætti samt að láta sér nægja að pexa við mig á Siglufirði um útvegsmál. (EystJ: Það væri gaman að heyra það hér líka.) Ég vil taka það fram í sambandi við þátttöku skipa á síldveiðum síðastliðið sumar, að athugandi er, hvort ekki sé óhyggilegt að láta mörg skip á síldveiðar. Þegar afli bregzt ár eftir ár, þá ber að athuga það sjónarmið, að það þarf að dreifa skipunum á fleiri veiðar. Það er of mikið áfall fyrir útveginn að stóla alltaf upp á síldina, þegar mikil veiðileysisár koma ár eftir ár. Fólk, sem vinnur að verkun aflans, fær ekki næg laun til þess að geta lifað af þeim. Þess vegna er þörf að athuga, hvort ekki sé hægt að dreifa flotanum meira á annars konar veiðar. Ef slíkt yrði gert, er líklegt, að það mundi greiða fyrir því, að flotinn gæti staðið á eigin fótum, þótt síldarleysisár endurtaki sig. Ég bendi á þetta hér til athugunar. Hins vegar hafa bankarnir frekar veitt lán til útgerðar á síldveiðar, en til annarrar útgerðar, en það er lítil hagfræði í því að hafa 200 skip á síld, ef aðeins ¼ hluti þeirra veiðir svo að, að gagni megi teljast. Þess má og geta, að það hefur hjálpað mörgum útgerðarmanninum, sem hefur sett afla sinn í salt, heldur en að selja síldarverksmiðjunum hann til bræðslu. Með því móti hefur hann fengið hærra verð fyrir aflann. — Ekki er úr vegi að athuga það sjónarmið, hvort ekki sé réttara að leggja áherzlu á að beina skipunum að fjölbreyttari veiðiskap. Ef illa fer á síldveiðum, þá verður skellurinn ekki það stór, að verulega muni um. Í Noregi, svo að tekið sé dæmi, eru veiðar skipanna mun fjölbreyttari en hér. Norðmenn hafa á margan hátt betri aðstöðu til útgerðar, en við Íslendingar, en þó geta þeir ekki leyft sér né hafa efni á að stunda eins einhæfa útgerð og við gerum. Ég skal svo ekki ræða frekar um þetta nú.

Það má vel vera, að eðlilegt væri að afgreiða þetta mál í sambandi við frv. það, sem hv. þm. Borgf. (PO) talaði hér um áðan, og væri ég því hlynntur, en hins vegar er nú málum svo komið hér á Alþ.,hæstv. ríkisstj. hefur ekki meiri hl. á þingi, og veit því enginn, hvernig fer um framgang málsins. Þetta mál þarf að afgreiða fljótt, og ég tel það eðlilegt, að bönkunum yrði falið að leggja fram það fé, sem þarf til að greiða sjómönnunum það fé, sem þeir eiga vangoldið inni hjá útvegsmönnum frá síðastliðnu sumri.