13.04.1950
Sameinað þing: 38. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í D-deild Alþingistíðinda. (3831)

100. mál, lóðakaup í Reykjavík

Gylfi Þ. Gíslason:

Ég vil fyrir hönd okkar flm. þakka. hv. allshn. fyrir afgreiðslu hennar á málinu. Hún hefur gert þá breyt. eina, að í staðinn fyrir að í till. er gert ráð fyrir, að ríkisstj. sé falið að rannsaka, hvort þarna sé um að ræða upprunalegt bæjarstæði fyrsta landnámsmannsins, og ef svo reyndist, þá sé ríkisstj. falið að kaupa þessar lóðir, þá er þessu breytt í heimildarform. Ég hefði að vísu frekar kosið, að till. væri samþ. í upprunalegu formi, en get sætt mig við þessa breyt., sem n. gerir á till., og geri það í trausti þess, að verði till. samþ., þá muni ríkisstj. nota þá heimild, sem í till. felst, til þess að láta fara fram rannsókn á því hvort þarna hafi verið bæjarstæði Ingólfs Arnarsonar, og ef svo reynist, þá geri ríkisstj. ráðstafanir til þess að þessar lóðir komist í opinbera eigu, ef bæjarstjórnin hefur ekki áhuga á því að eignast lóðirnar undir mikilvægar byggingar í þarfir bæjarfélagsins, eins og ég teldi eðlilegt.