13.04.1950
Sameinað þing: 38. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í D-deild Alþingistíðinda. (3833)

100. mál, lóðakaup í Reykjavík

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég tek mjög undir það, sem hv. þm. Borgf. sagði. — En það kom fram hjá hv. frsm. n., að þessi till. hefði verið send til bæjarráðs Reykjavíkur og umsögn hefði ekki borizt þaðan. Þetta kom mér á óvart. Því að það er ekki langt síðan bæjarráð fjallaði um þetta. Og meiri hluti þess var ekki andvígur því, að rannsakað væri, hvort þarna væri bæjarstæði Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns, en vildi ekki taka að öðru leyti afstöðu til málsins, þ. e. um það, hvort Reykjavíkurbær eða ríkið reisti þarna byggingar í framtíðinni. Mér þykir fyrir, að þetta álit bæjarráðs skyldi ekki liggja fyrir hv. þd., sem það hefði getað. Hins vegar er meiri hl. bæjarráðs samþykkur till. í heild. En ég tek undir það, sem hv. þm. Borgf. sagði. — Ég vildi beina því til hæstv. forseta, hvort ekki væri hægt að bera þessa till. upp í tvennu lagi, fyrri hlutann sér og síðari hlutann sér. Því að með því að samþ. fyrri hlutann einan, þá yrði fyrst gengið í það, eftir því sem ríkisstj. þætti ástæða til, að ganga úr skugga um, hvort bæjarstæði Ingólfs Árnasonar væri þarna eða ekki, og síðan ekki söguna meir. En hér í till. er farið fram á að rannsaka þetta fyrst og gera svo ráðstafanir í því sambandi. En eins og hv. þm. Borgf. benti á, þá getur svo farið, að hér sé ekki bæjarstæði Ingólfs Arnarsonar, þar sem nefndur er staður í till. Og þegar búið væri að rannsaka um það, væri nægur tími til að ákveða, hvað gera skuli í því sambandi, ef álitið væri, að um bæjarstæði Ingólfs Arnarsonar væri að ræða.