13.04.1950
Sameinað þing: 38. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í D-deild Alþingistíðinda. (3835)

100. mál, lóðakaup í Reykjavík

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég sé, að það hefur ekki verið ástæðulaust af mér að spyrja hv. frsm. um þetta mál. Sannleikurinn er sá, eins og hæstv. utanrrh. hefur bent á, að orðalag till. er þannig, að það þyrfti sjálfsagt skarpari mann en mig til þess að fá nokkurt vit út úr henni. Og má líta svo á, að þetta mál hafi verið borið fram svona til gamans fyrir flokk, sem er búinn að tapa öllum pólitískum hugsjónum á Alþ. — Hinu furðar mig á, að hv. allshn. skuli hafa tekið málið svo alvarlega eins og ráða má af nál. Og sérstaklega furðar mig á því, að það skuli hafa farið fram hjá hv. 2. þm. Rang., að hér er um milljónatugi að ræða, sem greiða yrði úr ríkissjóði, ef um kaup á þessum lóðum væri að ræða. Þess vegna var ekki undarlegt, þó ég spyrði um það, hvað væri meint með þessari till. Nú er upplýst, að hv. frsm. allshn., sem ég geri ráð fyrir að mæli fyrir hönd n., ætlast til þess, að gefin sé heimild til þess ekki aðeins að leitast við að fá keyptar þessar lóðir, heldur verði einnig ríkisstj. gefin heimild til þess að kaupa lóðirnar eða taka þær eignarnámi. En þá væri um milljónaupphæðir að ræða. Og þarf í því sambandi ekki annað en minna á það, að það er nýfallinn dómur um mat á þeirri lóð, sem Hótel Ísland stóð á, sem er nokkrir fermetrar og notuð er nú fyrir bílastæði. Og mér sýnist eftir blöðunum, að kaupverð á henni sé ein og hálf millj. kr. Menn geta af því fengið nokkra hugmynd um það, hvað það mundi kosta að kaupa kannske margfalt stærri lóðir heldur en bær Ingólfs hefur staðið á. Ég álít því, að þeir, sem hafa sent mál þetta til allshn., hafi ekki tekið það mjög alvarlega, því að eftir eðli sínu hefði málið átt að fara til fjvn. til athugunar, þar sem það er svo mikið fjárhagsspursmál, þegar það mundi, ef samþ. yrði, geta gilt milljónaframlag úr ríkissjóði.

Nú mun það verða sagt, ef að vanda lætur, að þetta sé aðeins heimildartill. En ég vil þá benda á annað mál, sem hefur verið mjög umrætt nýlega í hv. Ed., það er heimildin til þess að endurgreiða toll af innfluttum svo kölluðum sænskum timburhúsum. Heimild til þeirrar endurgreiðslu var veitt með atkv. meiri hl. alþm. Hún var ekki notuð af ríkisstj. Hver er svo afleiðingin? Hún er sú, að ár eftir ár hefur verið sótt á um það, að ríkisstj. notaði þessa heimild sína. Síðan er sótt á með það gagnvart fjvn., að hún leggi til, að þetta verði tekið upp á fjárl. Þegar það dugir ekki, er borið fram lagafrv. um það, að þetta verði greitt — ekki vegna þess, að nægilegt fé sé til þess í ríkissjóði, eins og hæstv. forseti Ed. hefur viðurkennt, að sé ekki, og ekki af því, að það sé talið eðlilegt að endurgreiða tollinn nei, heldur af því, að þarna sé um loforð að ræða, sem svikið hafi verið af ríkisstj., og þess vegna skuli þetta verða greitt og tekið lán til þess að greiða það. Þannig skilja þeir menn þáltill. yfirleitt. — Ég vildi gjarnan vita, hvort hv. frsm. allshn. hér er á sömu skoðun, þannig að ef þessi till., sem hér liggur fyrir, væri samþ., þá bæri að skilja þetta þannig, að ef ríkisstj. vildi af einhverjum ástæðum ekki kaupa þessar lóðir, þá mundi hann eða hans flokksmenn bera fram frv. um, að það skyldi gert, vegna þess að þessi þáltill. hefði verið samþ., — frv. um, að ríkisstj. skyldi fyrir hönd ríkissjóðs kaupa þessar lóðir, þó að um tuga milljóna kr. greiðslur úr ríkissjóði væri að ræða vegna þess og þó að ríkissjóður hefði ekkert fé til þess að inna af hendi þessar greiðslur. — Ég verð að segja, að þeir menn, sem hafa tekið fjármálin þessum tökum, hljóta að hafa gert það að gamni sínu að bera þessa þáltill. fram. Því að ég veit, að Alþ. hefur allt annað að gera, en að samþ. svona hluti, meðan fjárlagafrv. er ekki komið til 2. umr., vegna vandamála í fjárhagsmálum þjóðarinnar.

Ég vildi óska, að hv. n. taki þetta til alvarlegrar athugunar. Ég fer ekki fram á að stíla till. um, eftir að hún hefur komið frá menntamanni eins og hv. 3. landsk. þm. En ég vildi, að hún væri umorðuð þannig, að það sé þó a. m. k. eitthvert fjárhagslegt vit í málinu. Og þá ber að birta það hér í nýju nál., hvað það mundi kosta raunverulega fyrir ríkissjóð að framkvæma þessi lóðakaup. Því að það kemur ekkert fram hér í nál. um það, hvað það mundi kosta fyrir ríkissjóð. Og einnig er það alveg óverjandi að prenta ekki með nál. umsögn bæjarráðs Reykjavíkur um málið, frá þeim aðila, sem langmest kemur þetta mál við. — En í því tilfelli, að hvorki hv. frsm.n. í heild vildi taka þetta til athugunar, vildi ég leggja til, að þáltill. þessari yrði vísað til ríkisstj. og hún ekki samþ. Hins vegar tel ég eðlilegt, að málið gangi aftur til n. og verði betur upplýst heldur en gert hefur verið, eins og komið hefur fram í umr., að þörf er á.