26.04.1950
Sameinað þing: 40. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í D-deild Alþingistíðinda. (3845)

100. mál, lóðakaup í Reykjavík

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég hef orðið allt að því klökkur af því að hlusta á svona ræðu eins og hv. 2. þm. Reykv. (EOl) um uppbyggingu höfuðstaðarins, og gat ekki varizt að hugsa sem svo, að þjóðleikhúsið væri farið að hafa mikil áhrif á hv. þm., svo að manni fannst maður jafnvel horfa á álfahópa og annað slíkt. Ég held, að ef þessi gífurlegi áhugi fyrir að byggja hér einstæða framtíðarborg kæmi í framkvæmd, mundi það leiða til algerðrar stöðvunar í uppbyggingu Reykjavíkur um ófyrirsjáanlegan tíma, ef samþykkja ætti og framkvæma tillögu eins og þá, sem hann ber hér fram. Þetta er í rauninni ekki annað en það, sem daglega er verið að framkvæma samkvæmt lögum og reglugerðum, sem settar hafa verið um bæjarstjórnarmál, ásamt þar til bærum stjórnarvöldum, eins og t. d. skipulagsnefnd ríkis og bæja. Það er þetta, sem verið er að gera daglega í stjórn og uppbyggingu Rvíkur og þeir aðilar, sem um þessi mál fjalla, hafa meira og minna fyrir sjónum. Með þessari brtt. er hv. 2. þm. Reykv. kominn inn á svo miklu víðtækari grundvöll en upphaflega var til ætlazt, að það má telja að flestu eða öllu leyti annað mál, og tel ég því ekki rétt að fallast á slíka gerbreytingu og hér er um að ræða.