08.02.1950
Sameinað þing: 24. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í D-deild Alþingistíðinda. (3852)

107. mál, réttarrannsókn á togaraslysum

Flm. (Steingrímur Aðalsteinsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 290 till. til þál. um, að látin verði fara fram réttarrannsókn á slysum þeim, sem orðið hafa á íslenzkum togurum að undanförnu, og á grundvelli þeirrar rannsóknar og með hliðsjón af lögum annarra þjóða um þetta efni láti hæstv. ríkisstj. undirbúa löggjöf um að koma í veg fyrir, að slys verði eins tíð og að undanförnu. Það er mönnum orðið mikið áhyggjuefni, hve tíð þessi slys á togurum okkar eru orðin. Hér er ekki sérstaklega átt við dauðaslys, sem þó hafa orðið fleiri en búast hefði mátt við, heldur hin, sem leiða ekki til dauða, heldur til meiri eða minni meiðsla á mönnum, og nú eru orðin svo tíð, að menn, sem þekkja vel til, telja þau vera svo að segja daglegan viðburð á íslenzkum togurum. Ég spurðist fyrir um það hjá Slysavarnafélagi Íslands, hvort það hefði safnað skýrslum um þau slys, sem orðið hafa á togurunum, en svo reyndist þó ekki nema um dauðaslys. Slysavarnafélagið lét mér í té skýrslu 2. þ. m., og ber hún með sér, að fjögur dauðaslys hafa orðið 1948 og eitt 1949. Eins og ég sagði áðan, er það að vísu allt of mikil mannfórn, þótt við áhættusaman atvinnuveg sé, og full ástæða af þeim sökum, þótt ekki væri annað, að taka þetta mál til alvarlegrar athugunar með það fyrir augum að koma í veg fyrir þessi slys. En eins og ég tók fram, þá tel ég hinn þáttinn mjög svo alvarlegan, þ. e. hin tíðu slys, sem ekki leiða þó til dauða. Um þau hef ég engar tæmandi upplýsingar, enda er farið fram á það í þáltill., að rannsakað verði, hve mörg þau hafa verið, hvernig þau hefur að höndum borið og hverjar eru höfuðorsakir þeirra. Þótt ég hafi sem sagt ekki um þetta tæmandi upplýsingar, þá vil ég þó leyfa mér að nefna nokkur dæmi um þessi slys, sem eru, eins og sjómenn segja, að verða daglegur viðburður á íslenzkum togurum. Ég vil taka það fram, að dæmin verða ekki staðfærð á sérstök skip né nefndar heimildir, en ég fullyrði, að þetta eru staðreyndir, sem og mun koma í ljós við rannsókn.

Í einni veiðiferð slasast tveir menn samtímis, annar fótbrotnar á báðum fótum, en hinn slóst til og marðist, svo að setja varð hann í land. Í einni veiðiferð marðist maður svo, að setja varð hann í land, og var hann frá vinnu í 2–3 mánuði. Í annarri veiðiferð varð það, að maður kastaðist undan sjó og fékk þá mikið högg á handarbak annarrar handar. Maðurinn meiddist svo, að hann bað um að fara með sig í land til læknis, en skipstjóri neitaði og taldi ekki þörf á því. Það var því fyrst eftir 14 daga, að lokinni veiðiför, er farið var til lands, að maðurinn komst til læknis og reyndist þá vera með brotin tvö handarbaksbein. Í einni veiðiferð var það, að sjór gekk yfir skipið, og tók alda einn mann og sló honum svo við vélarreisn skipsins, að höfuðkúpubrot varð af. Þótti samt ekki taka því, frekar en í dæminu á undan, að fara í land með manninn til læknis, fyrr en veiðiförinni var lokið. Í einni veiðiför fékk togari tundurdufl í vörpuna. Skipstjóri skipar að taka inn vörpuna með duflinu í, og lætur hann síðan mennina bisa við það á dekki veltandi skipsins að losa duflið úr vörpunni. Þegar því er svo lokið, lætur hann slá á það köðlum og setja fyrir borð aftur. Af þessu varð að vísu ekki slys, en um það hafði skipstjóri ekki hugmynd, og sýnir þetta vítaverða óvarkárni og hirðuleysi fyrir lífi skipshafnarinnar og þá auðvitað einnig sjálfs sín, því að eins og gefur að skilja var það tilviljun ein, að duflið skyldi ekki springa og allir farast.

Þá vil ég nefna hér, að samkv. Morgunblaðinu 31. jan. s. l. hafði togarinn Ísólfur komið til Siglufjarðar með fimm slasaða menn. Hafði togarinn verið að veiðum út af Vestfjörðum, er stórsjór reið yfir skipið, og meiddust þá mennirnir fimm „allir í sömu andránni“, eins og Morgunbl. orðar það. Einn þessara manna handleggsbrotnaði, annar missti framan af fingri, en um meiðsli hinna er ekki getið.

Eins og ég sagði áðan, þá eru þessi dæmi alls ekki tæmandi, heldur aðeins nefnd sem sýnishorn af þeim slysum, sem á togurunum hafa orðið að undanförnu. En ef framkvæmd yrði sú rannsókn, sem þáltill. fer fram á, mundi það sýna sig, að þessi slys eru orðin geigvænlega tíð, og einnig vildi ég þá vonast til, að hv. alþm. litu á þetta eins alvarlegum augum og ég, og að þörf væri á að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir þetta, að svo miklu leyti sem það er hægt. Ég vil ekki nú í þessu sambandi fara að ræða síðasta slysið, þ. e. a. s. þegar togarinn Vörður fórst og með honum fimm menn. Ég geri ráð fyrir, að nú þegar sé hafin rannsókn í því máli og að hún leiði í ljós, með hverjum hætti það atvikaðist. Ég vil ekki fara út í að ræða það nú, þótt tilefni hafi gefizt af blaðaskrifum, sérstaklega þó skrifum Morgunblaðsins, sem gefa ástæðu til þess að ætla — að mér finnst, að teflt hafi verið nokkru tæpara með líf þeirra sjómanna, er þar áttu hlut að máli, en þörf hafi verið. En ég vil þó ekki draga það frekar inn í þessar umr., því að það verður sjálfsagt upplýst á öðrum vettvangi. En það er sérstaklega athugandi í sambandi við þessi tíðu slys, að þeim virðist hafa fjölgað mjög nú á seinni árum, eftir að bætzt hafa í flotann hin nýju og vönduðu skip, nýsköpunartogararnir. Mér virðist nú, að við tilkomu hinna nýju og betri skipa ætti slysahættan að minnka, en reynslan virðist fara í öfuga átt. Virðist það ótvírætt benda í þá átt, að þar sem með þessum nýju skipum er hægt að stunda veiðiskapinn fastar, þá sé hann oft stundaður af meira kappi en forsjá, enda er það mál sjómanna, að sumir skipstjórar telji sér fært að halda áfram veiðum hvernig sem viðrar. Sennilegt er, að til grundvallar hinum óhóflega veiðiskap liggi það, að skipstjórarnir telji sig þannig geta aflað meira og þjónað þannig betur hagsmunum útgerðar sinnar. En mér skilst á sjómönnum, að þeir telji mjög vafasamt, að þannig geti verið um hagnað fyrir útgerðina að ræða, því að hvort tveggja sé, að af þessu leiði tíðari slys og meira veiðarfæratjón, sem nemi oftast meiru en því, sem útgerðin hagnast á auknum afla. Þegar litið er nú á hvort tveggja, aukna slysahættu og að mjög vafasamt er, að af þessari föstu sjósókn leiði aukna verðmætasöfnun, þá er full ástæða til þess að taka í taumana á þann hátt sem dugir, til þess að koma í veg fyrir þessa óhæfilegu sjósókn. En eins og sakir standa virðist mér ekkert það ákvæði vera í lögum, sem komi í veg fyrir slíkt, þ. e. a. s. ekkert það ákvæði, sem geri skipstjóra ábyrgan fyrir að tefla lífi skipshafnar sinnar á tæpasta vaðið eða a. m. k. valda meiri eða minni meiðslum á skipsmönnum sínum, eins og fyrrnefnd dæmi sanna. Það er að vísu gert ráð fyrir því í l., að það sé skráð í dagbók skipsins, þegar slíkir atburðir gerast, og er það þá auðvitað gert með því orðalagi, sem stjórnanda skipsins þykir hæfa í hverju tilfelli. Enn fremur er talað um það í 45. gr. siglingal. frá 1914, að skipstjóra beri að tilkynna slys til yfirvaldanna. En mér virðist orðalag þessarar gr., eins og siglingal. yfirleitt, vera miklu meira miðað við það, ef tjón verður á skipinu sjálfu og farmi þess, heldur en ef slys eða tjón verður á skipverjum. Og ég held, að ákvæði þessarar gr. um tilkynningarskyldu á slysum, ef hún á annað borð nær nokkuð út fyrir skaða á skipi og farmi, þá nái hún að minnsta kosti ekki lengra en til slysa, sem leiða til dauða. Ég hef a. m. k. ekki fundið út úr þessum l. nein ákvæði um það, að það sé lagaskylda að tilkynna yfirvöldunum, þó að svokölluð minni háttar slys verði á mönnum. Mér er enda nær að halda, að það sé a. m. k. ekki framkvæmt þannig, og þegar slíkir atburðir gerast, þá sé látið nægja að geta þeirra lauslega í dagbók skipsins og síðan sé ekki annað gert, þegar slys eru ekki svo alvarleg, að komizt verður hjá að koma mönnunum undir læknishendur og fá nýja menn í skarðið, eftir því sem þarf í hverju tilfelli. Það getur því endurtekið sig hvað eftir annað á sama skipi og án þess að skipstjóri verði af þeim sökum að sæta nokkurri verulegri ábyrgð, að menn slasist meira eða minna og jafnvel taki út og farist, án þess að nokkuð frekar sé í þeim málum gert, a. m. k. ekkert, sem að gagni kemur og leiði til þess, að nokkuð meiri varúðar sé gætt í næstu veiðiferð eða þeim, sem þar koma á eftir. Í sjómannal. hef ég heldur ekki fundið nein ákvæði, þar sem skipstjórnarmenn eru gerðir ábyrgir fyrir slíkum atburðum eða sem felist í nokkur vernd fyrir þá sjómenn, sem hlut eiga að máli. Það eina, sem ég hef fundið í þeim varðandi þetta, er síðari málsgr. 56. gr. þessara l., sem er á þá leið, að þeim manni, sem verkum stjórnar, er skylt að gæta þess, að fylgt sé nauðsynlegum varúðarreglum gegn slysum og sjúkdómum. Eins og gefur að skilja, þá kemur náttúrlega slík orðafroða eins og þetta sjómönnunum að litlu gagni og er þeim til lítillar verndar í slíkum tilfellum sem hér er verið að tala um. Er kannske eitt gleggsta dæmið um það einmitt það dæmi, sem ég nefndi áðan um tundurduflið, sem tekið var inn á dekk skipsins í stórsjó og menn látnir bisa við að losa það úr vörpunni og koma því síðan fyrir borð aftur. Menn geta nokkuð af því séð, hve alvarlega þessi málsgr. sjómannal. er tekin, sem er um að gæta varúðar gegn slysum og öðru slíku. Mér er ekki kunnugt um það, og ég hef ekki getað fundið í l., sem ég hef litið yfir og talið, að sérstaklega mundu fjalla um þetta mál, nokkur ákvæði, þar sem nokkur alvarleg ábyrgð sé lögð á herðar skipstjórnarmanni um það að gæta sæmilegs hófs í sjósókn, þannig að ekki sé lífi og limum skipverjanna teflt í tvísýnu að nauðsynjalitlu eða nauðsynjalausu. Ég held þess vegna, að það sé nauðsynlegt að gera hvort tveggja: það, sem farið er fram á í þessari till., að láta fara fram tæmandi rannsókn á þeim slysum, sem orðið hafa t. d. á tveim síðustu árum, eins og till. er miðuð við, til þess að fá alveg tæmandi yfirlit yfir það, hversu mörg og alvarleg slysin eru, og að á grundvelli þessarar rannsóknar sé síðan undirbúin — og með hliðsjón af l. annarra þjóða um þetta efni — löggjöf og sett í l. ákvæði, sem geri skipstjórnarmenn og útgerð skipanna miklu ábyrgari fyrir framkomu sinni gagnvart lífi og limum skipverja, svo að ætla megi, að það geti orðið til þess að draga úr þeirri miklu slysahættu, sem nú er, til þess að hér eftir verði slysin ekki eins tíð og raun hefur borið vitni um t. d. nú tvö s. l. ár. Ég hef ekki haft neina aðstöðu til þess að kynna mér l. annarra þjóða um þetta efni. Mér hefur þó verið sagt, að t. d. í enskum l. séu ákvæði, sem valdi því, að ef t. d. togaraskipstjóri missir mann út eða önnur alvarleg slys verða á skipi hans, a. m. k. ef þau endurtaka sig, þá leiði það innan skamms til þess, að hann tapi réttindum til skipstjórnar lengri eða skemmri tíma. Ég veit ekki sjálfur, hvernig þau lagaákvæði eru, en tel sjálfsagt — enda mun það auðvelt fyrir utanríkisþjónustuna — að fá upplýsingar um lagaákvæði þessarar þjóðar í þessu efni og tel sjálfsagt, að þau séu höfð til hliðsjónar við lagasetninguna hér, sem sett yrði samkv. till. og miða ætti að því að draga úr þessari slysahættu og þessum allt of tíðu slysum, sem hér hafa orðið á togurunum.

Ég mun ekki fjölyrða um þetta mál að sinni, en vænti þess, að hv. Alþ. vilji taka vel undir það, telji það þess virði, og ég vil vænta þess, að sú rannsókn, sem till. fer fram á, verði framkvæmd og síðan láti ríkisstj. undirbúa þá lagasetningu, sem hún teldi nauðsynlega í þessu sambandi, og þannig mætti svo takast að gera ráðstafanir, sem verulega drægju úr þessum tíðu slysum. Ég vildi þá leyfa mér að leggja til, að till. að lokinni þessari umr. verði vísað til allshn. Ég held, að þó að það kunni að kosta eitthvert fé að framkvæma þessa rannsókn, sem till. felur í sér, þá mundi ekki þurfa til þess sérstaka fjárveitingu. Það er, eins og hv. þm. er kunnugt, á fjárl. hvers árs ætlað nokkurt fé til slíkra mála eða skyldra þessu, og geri ég ráð fyrir, að ekki þyrfti fjárveitingu í þessu efni og sé því ekki ástæða til að vísa till. til fjvn., en legg til, að henni verði vísað til allshn.