08.02.1950
Sameinað þing: 24. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í D-deild Alþingistíðinda. (3853)

107. mál, réttarrannsókn á togaraslysum

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það hlýtur að vera áhugamál allra, að komið verði í veg fyrir slys og tjón af völdum þeirra, og að svo miklu leyti sem þessi till. kann að stuðla að því, ber að fagna henni. Hins vegar get ég ekki varizt því að telja, að till. sjálf, form hennar og efni sé byggt á nokkrum misskilningi, og ég staðfestist raunar í þeim grun mínum við að heyra ræðu hv. flm., þar sem hann var að ræða um þau 1agaboð, sem hér kæmu til álita. Það má ef til vill segja, að þau ákvæði, sem hann vitnaði í, séu ekki eins glögg og skyldi, en hann gleymdi þá líka því lagaboðinu, sem tekur af allan vafa En það eru l. nr. 68 frá 1947, um eftirlit með skipum. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta, í 1. 2. málsgr. 50. gr.: „Hafi einhver sá atburður gerzt, er valdi því, að halda beri sjóferðapróf samkv. 45. gr. l. nr. 56 30. nóv. 1914, ber að gera eftirlitsmanni í því umdæmi, þar sem sjópróf er haldið, aðvart um það, og sé um að ræða strand skips, verulegar skemmdir á skipi eða veruleg meiðsli manna, ber honum að mæta eða láta mæta við prófin. — Eftirlitsmanni ber og að hefjast handa um, að próf sé haldið, ef hann telur ástæðu til eða þess er krafizt af aðilum þeim, sem taldir eru í b-lið 29. gr.“ — Samkvæmt þessu ákvæði er það alveg ótvírætt, að ef veruleg meiðsli á mönnum verða á skipinu, ber að halda um það sjópróf. Það er að vísu fyrst og fremst ætlazt til þess, að skipstjórinn tilkynni, ef slíkt verður, og má þá segja, að þá kunni af því að leiða, að ef skipstjóri finnur sjálfan sig sekan, þá hliðri hann sér hjá því, að próf verði. En þá er líka tekið fram, að eftirlitsmenn með öryggi skipa, sem eru margir víðs vegar um landið, eigi að hefjast handa um þetta, og enn fremur er tekið fram í 2. málsgr. 50. gr., að það sé skylt að halda próf, ef meiri hluti skipshafnar, vélstjóri eða stjórn stéttarfélags eða félags sjómanna á staðnum krefjist þess. Þessir aðilar hafa það því í hendi sér að krefjast sjóprófs um þessi efni hvenær sem er, og ég tala ekki um, ef manntjón verður og einnig ef veruleg meiðsli verða á mönnum. Og það verður að ætla, að eftirlitsmönnum með öryggi skipa beri bein skylda til þess að hefjast handa um, að próf eigi sér stað, ef þeir komast eftir því, að slíkar slysfarir hafi átt sér stað. Nú kann vel að vera, að þetta sé að einhverju leyti dauður bókstafur. Lögin eru tiltölulega ný, og ég er ekki kunnugur því — hef ekki haft tíma til að láta rannsaka það, hve mikið hefur kveðið að réttarrannsóknum af þessu tilefni. En þess ber þá að gæta, að það hefur verið komið upp allumfangsmiklu kerfi um land allt til þess að fylgjast með því, að ekki væri sofið á verði varðandi þessi atriði, og bæði getur meiri hluti skipshafnar og félög sjómanna á hverjum stað hlutazt til um það, að próf verði haldið. Auk þess liggur það í hlutarins eðli, þó að það sé ekki berum orðum tekið fram, að ef maður, sem sjálfur hefur orðið fyrir meiðslum, kemur til dómara og óskar eftir, að próf verði haldið um það, þá er það vitaskuld gert. Það er sjálfsögð regla, sem ekki þarf að efast um að fylgt verði. Það má vel vera, að af svipuðum ástæðum og þeim, að hv. flm. vildi ekki telja hér upp þau skip og þá skipstjóra, sem hann taldi, að hefðu af sér gert í þessum efnum, þá vilji einstaklingarnir sjálfir ekki óska eftir prófi, þó að þeir hafi orðið fyrir meiðslum, — sem er þó í rauninni óskiljanleg hlífð. En þá eru það stéttarfélög þeirra, sem ótvírætt hafa þennan rétt.

Ég tel eðlilegt, að þessi till. gangi til n. og sé þar athuguð, en áður en slík réttarrannsókn er fyrirskipuð af Alþ., sem felst í till., þá er að minnsta kosti fyrst sjálfsagt að athuga, hvað hefur komið fram við þær réttarrannsóknir, sem eiga að fara fram, þegar slys hafa átt sér stað. Það liggur nær að rannsaka það fyrst, áður en slík réttarrannsókn er skipuð aftur í tímann. Enn fremur virðist það vera nær, að aðilarnir sjálfir, sem hér eiga hlut að máli, sjái um, að þessum lagaboðum sé fylgt í framtíðinni, heldur en að slíkar rannsóknir langt aftur í tímann séu fyrirskipaðar, rannsóknir, sem því miður eru ekki líklegar til að leiða til mikils árangurs. Ég er ekki að gera lítið úr því, að þetta sé athugað til hlítar, heldur aðeins að vekja athygli á því, að hv. flm. hefur sézt yfir þau lagaákvæði, sem eru nú þegar í gildandi l. og gera það að verkum, að engin skipshöfn þarf að una því, að slík slys eigi sér stað, án þess að um það eigi sér stað fullkomin rannsókn, hvernig á þeim stendur. Og það er því ekki öðrum um að kenna heldur en þeim, sem láta slíkt yfir sig ganga, ef fallið hefur niður rannsókn á þessu, vegna þess, að vitanlegt er, að oft og tíðum er það svo, að dómarar, siglingardómur og skipaeftirlitsmaður hér í Reykjavík hafa ekki aðstöðu til þess að fylgjast með þessu, heldur er eðlilegt og óhjákvæmilegt, að kæra komi til þeirra frá aðilum, sem þarna eiga hlut að máli.

Hv. þm. taldi, að það væri vafasamt, að fullnægjandi ákvæði væri um það í l., ef skipstjórnarmaður færi óvarlega með stjórn á skipi sínu, þannig að mannsbani t. d. hlytist af. Ég hygg nú sannast að segja, að fullskýr ákvæði séu um það í l., m. a. það ákvæði hegningarl., að hver maður, sem veldur mannsbana af gáleysi, hann vinnur til refsingar. Og skipstjóri, sem fer óvarlega með stjórn á skipi sínu, vinnur einnig til refsingar og þar á meðal réttindamissis. Þetta eru allt ákvæði, sem liggja í hlutarins eðli og hafa verið lengi í l. Hv. þm. sagði að vísu, að í Bretlandi mundi það vera svo, að maður mundi áður en langt um liði missa réttindi sín, ef það kæmi fyrir hann a. m. k. oftar en einu sinni að missa mann fyrir borð af skipi sínu, þannig að hann færist. Þessi frásögn er svo óljós, að á henni er lítið að byggja, enda verð ég mjög að draga í efa, að skipstjóri í Bretlandi missi réttindi sín, nema hann verði að einhverju leyti sakfelldur, honum verði um eitthvað kennt. En íslenzk l. fela það sama í sér, þannig að verði skipstjórnarmanni um kennt, þá mun hann, áður en langt um líður, ef sök verður á hann sönnuð, missa réttindi sín. Hitt má vel vera, að almenningur átti sig ekki á þessari lagasetningu, sem sett var fyrir 2 árum, þegar þessum hv. þm., svo gerhugull sem hann er, hefur yfirsézt í þessu efni. En mér finnst rétt að vekja athygli sjómanna á þeirri réttarvernd, sem þeim er þegar búin að þessu leyti. Ég vek athygli á þessum atriðum í þessu sambandi vegna þess, að ég tel nauðsynlegt, að n., sem fær málið til meðferðar, hafi þau til hliðsjónar, þegar hún tekur afstöðu til till. Hinu er ég hv. flm. sammála, að nauðsynlegt er að gera raunhæfar ráðstafanir til þess að draga úr slysahættu. Vissulega hefur sumt í þeim efnum gerzt, og ekki alls fyrir löngu, sem vekur nokkra furðu manna, a. m. k. meðan það er ekki rannsakað betur en gert hefur verið.