08.02.1950
Sameinað þing: 24. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í D-deild Alþingistíðinda. (3864)

109. mál, Helicopterflugvél

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Það er alkunnugt, að mikill áhugi er á því að fá helicopterflugvél sérstaklega til aðstoðar við björgunarstörf. Nú heyrðist mér á hæstv. dómsmrh., að hann drægi í efa, að vélar af þessari stærð gætu komið að eins miklu gagni og búizt hefur verið við og æskilegt hefði verið, bæði til björgunarstarfa og einnig til landhelgisgæzlu. Til landhelgisgæzlu vegna þess, að varla væri hægt að hafa svo mikla áhöfn sem nægði til fullkominna mælinga og staðarákvarðana, og til björgunarstarfsemi vegna þess, að þær gætu ekki flogið í meiri vindi en 7–8 vindstigum, en eins og kunnugt er, þurfa skip, sem stranda, oft aðstoð í mun meiri vindi. Nú vildi ég leita eftir því hjá hæstv. dómsmrh., hvort honum væri kunnugt um, hve miklu stærri vélar væru notaðar í öðrum löndum og hvað stórar þær þyrftu að vera hér til þess að koma að sem fyllstu gagni, svo og hve mikill munur væri á kaupverði og rekstrarkostnaði.