12.01.1950
Efri deild: 28. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég er ekki einn um þá skoðun, heldur mun öll þjóðin hafa vænzt sterkari ábyrgðartilfinningar af hv. 1. þm. Eyf. en flestum öðrum, sem greiddu atkv. umræddri till., að þeim ólöstuðum, og tel ég því, að á honum hafi hvílt þyngri ábyrgð en öðrum. Ég skal upplýsa hv. þm. um það, að það er rétt, að það þarf eftirlit, hvort sem mín till. verður samþ. eða felld. En aðalatriðið er þetta, að hitt fyrirkomulagið skapar ranglæti, og auk þess verður opin leið fyrir marga að skila engan veginn hreinni lifur. Því verður nauðsynlegt að kosta stórfé upp á þetta eina, varðandi gæði lifrarinnar, til þess að fá hana hreina. Og ég er viss um, að fengi þessi hv. þm. tækifæri til að athuga málið í n., þá hefði hann ekki látið þetta slys henda sig. Hins vegar tel ég óverjandi með öllu að ætla sér að láta ríkissjóð greiða út sama verð fyrir lifrarlítrann með 30% lýsismagni og lítrann með 60% lýsismagni, jafnvel þótt á þessu stutta tímabili sé. Því vænti ég þess, að till. mín verði samþ. nú til að draga úr þessu. — Mér finnst aðalástæðan hjá hv. frsm. vera sú að forðast það, að andvirði þessa lýsis úr lifrinni yrði sett hærra, og því hefur hann kosið þann kost að hafa þennan hátt á afgreiðslu málsins til að fyrirbyggja það. Sannleikurinn er sá, að verði till. látin standa svona í l., og alveg sérstaklega, ef till. mín verður felld, þá verður ríkissjóður að taka allt lýsið og fara með það allt inn á sama gengi, og í þá átt, átt er verið að fara með atkvgr., svo að eigi er sett undir þann leka, enda hefur hv. þm. Str. viðurkennt það.

Ég sé svo eigi ástæðu til að deila um þetta mál, fremur en orðið er.