13.03.1950
Sameinað þing: 33. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í D-deild Alþingistíðinda. (3874)

109. mál, Helicopterflugvél

Frsm. meiri hl. (Helgi Jónasson) :

Herra forseti. Það er nú orðið nokkuð langt síðan þessi till. kom hér síðast til umr., og hefur hún nú legið fyrir fjvn. á nokkrum fundum. N. hefur ekki getað orðið sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl., 6 menn, leggur til, að till. verði samþ., en einn þeirra, hv. þm. Borgf. (PO), gerir ráð fyrir að koma fram með brtt., en minni hl., 3 menn, leggur til, að till. verði samþ., en þó með miklum efnisbreytingum.

Mál þetta er ekki nýtt, því að í nóvember 1948 barst fjvn. bréf frá hæstv. þáv. menntmrh. þess efnis, að ráðuneytið hefði borizt erindi frá Slysavarnafélaginu, þar sem það gat þess, að það ætti kost á að fá lánaða helicopterflugvél til landsins í reynsluskyni, og óskaði Slysavarnafélagið eftir því, að ríkissjóður styrkti félagið með fjárframlögum í þessu skyni. Fjvn. lagði til, að ríkissjóður legði nokkurt fé fram, og kom svo vélin hingað í maí 1949 og var reynd hér s. l. sumar í nokkur skipti, bæði við björgunarflug, mælingar og landhelgisgæzlu. Þóttu þessar tilraunir gefast vel, og leggja þeir, sem umsjón höfðu með vélinni. til, að hún verði keypt, og telja þeir og forstjóri Skipaútgerðar ríkisins, Pálmi Loftsson, að flugvélin muni geta komið að miklu gagni bæði við björgun og landhelgisgæzlu. Það má vel vera, að vélin sé fulllítil, en þeir, sem mestan kunnugleika hafa á þessum málum, telja, að mikið gagn megi af henni hafa, og leggja því til, að Slysavarnafélaginu verði leyft að kaupa vélina og ríkið annist um reksturinn. Kostnaðurinn er að vísu nokkuð hár, eða um 240 þús. kr. á ári, en af kunnugum er talið, að nokkuð megi draga úr honum. En það, sem við, sem að meirihlutaálitinu stöndum, óttumst, er það, að verði vélinni nú sleppt úr landi, verði þess langt að bíða, eins og högum okkar er nú háttað, að við fáum aðra vél í stað þessarar. En þar sem talið er, að mikil not megi hafa af vél þessari, leggjum við til, að Slysavarnafélaginu verði leyft að kaupa vélina, en ríkissjóður annist rekstur hennar, hvernig sem honum verður svo háttað. Vélar þessar hafa verið reyndar í allmörg ár, bæði í Evrópu og Ameríku, og hafa þótt gefast vei. Þær þola bæði regn og fjúk og storm allt að 8 vindstigum. Um stærri gerðir er það að segja, að kunnugir telja, að erfitt muni vera að fá þær til landsins og margfalt dýrari og rekstrarkostnaður mun meiri. Meiri hl. fjvn. vill því leggja til, að till. verði samþ., og mæla einnig allir, sem með þetta mál hafa að gera, auk tveggja ráðh. bæði úr hæstv. fyrrv. og hæstv. núv. ríkisstj., með því, að svo verði gert.