12.01.1950
Efri deild: 28. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í B-deild Alþingistíðinda. (388)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Þessi till. eða breyt., er gerð hefur verið við 2. umr. málsins, hefur eigi verið borin fram af n. Ég þarf því ekki sem frsm. að verja hana. En ég tók nú til máls vegna þess, að orðum var beint til mín fremur en annarra, þeirra er greiddu breyt. þessari atkv.

Út af orðum hv. þm. Barð. um ábyrgðartilfinningu vil ég lýsa því yfir, að mér er vel ljós ábyrgð mín sem þm. að láta ríkissjóð fá tekjur til þess að standa undir þeim byrðum, sem löggjöf þessi leggur á hann. Hef ég áður gert grein fyrir því, hvernig taka ætti allar byrðar og þarfir ríkissjóðs í einu til athugunar, en eigi væri ástæða til að taka þessa tekjustofna í ákveðin l., né heldur væri þess nauðsyn. Ég nefndi líka ástæðuna til þess, að ég taldi þessa brtt. helzt koma til greina af brtt., en eigi var það, það sem hv. þm. áleit, heldur hitt, að ég áleit, að á þennan hátt yrði útgerðarmönnum bezt tryggt ákveðið verð fyrir lifrina, og ég nefndi það, að þetta væri eingöngu til að tryggja, að lýsið yrði ekki á neinum frílista í framtíðinni. Hitt er óneitanlega rétt, að þrátt fyrir það, að ábyrgð verði tekin á lifrinni, þá getur ríkisstj. auk þess sett hana á frílista, ef hún getur yfirleitt sett nokkrar vörur á frílista. Og meira að segja lít ég svo á, að hafi ríkisstj. þessa heimild, er hún notar og byggir á ákveðnum lagastaf, þótt ágreiningur kunni að vera um það, og hafi verið í tíð fyrrv. stj., — jafnvel þótt brtt. hv. 1. þm. N–M. hefði verið samþ. um fjölgun vöruflokka á frílista, þá hefði það ekki tryggt neitt í þessu efni, ef þessi heimild er skýr og ljós.

Skal ég svo ekki orðlengja þetta frekar.