08.03.1950
Sameinað þing: 31. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í D-deild Alþingistíðinda. (3885)

118. mál, raforkudreifing

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja þessa þáltill., og þarf ég ekki að fara um hana mörgum orðum og get vísað til þess, sem um þetta mál segir í meðfylgjandi grg. Þó skal ég aðeins skýra nokkuð efni hennar og af hvaða ástæðum ég hreyfi þessu máli.

Eins og vikið er að í grg., mun rafveita ríkisins hafa ætlað sér að leggja leiðslur um byggðir landsins með öðrum hætti en upphaflega var hugsað; a. m. k. er það alveg víst, að um það leyti sem löggjöf um þetta var sett á Alþingi, þá var gengið út frá því sem gefnu, að leiðslurnar, hvort sem þar væri um að ræða háspennu eða lágspennu, yrðu gerðar með þeim hætti, að búendur í sveitum gætu þegar frá byrjun haft raforkunnar full not. Nú hefur komið til orða að leggja heim á bæina svokallað einfasa kerfi og jafnvel verið hafizt eitthvað handa um það. En þessu er svo háttað, að þurfi menn á mikilli orku að halda, þá nægja tæpast þeir einfasa hreyflar, sem völ er á, og mun þurfa tvo í stað eins undir mörgum kringumstæðum. Nú eru einfasa hreyflar dýrari en þrífasa hreyflar, og mundi þetta skapa búendum mjög aukinn kostnað. Ég skal játa, að ég hef sjálfur enga sérþekkingu á þessum málum, en ég hef ráðfært mig við kunnáttumenn í þessum málum og spurzt ýtarlega fyrir um þetta, og þeim kemur öllum saman um, að þetta sé óhyggileg ráðstöfun, því að í þeim tilfellum, þar sem þörf sé mikillar orku, muni þurfa að breyta kerfinu og bæta linum við það og gera það að þrífasa kerfi í stað einfasa kerfis. Liggur þá í augum uppi, að því yrði samfara miklu meiri kostnaður, heldur en ef svo hefði verið um hnútana búið frá upphafi. Til venjulegrar heimilisnotkunar nægir þetta kerfi, sem nú er fyrirhugað. En bændur um mikinn hluta landsins hafa nú mikinn áhuga fyrir því að koma sér upp súgþurrkunartækjum til þess að draga úr þeirri miklu hættu, sem óþurrkunum er samfara, er oft leika landbúnaðinn grátt. En til þessarar sérstöku starfsemi þarf mikinn straum, þar sem um stórar hlöður er að ræða, og með tilliti til súgþurrkunar er stöðugt verið að stækka þær til þess að hennar verði sem fyllst not. Þá þarf sterka hreyfla til þess að hreyfa blásarana — allt upp í 15 hestöfl; en af einfasa gerð er erfitt að fá slík tæki, þar sem þau eru aðallega framleidd í Ameríku. Ég held þess vegna, að allra hluta vegna væri æskilegt að hafa þá gerð á þessu þegar í upphafi, að það geti orðið til frambúðar og menn þurfi ekki að leggja í stórkostlegan aukakostnað vegna breytinga síðar. Bændum er þetta svo mikið alvörumál, að þeir munu verða ófúsir á að taka orkuna, ef þeir geta búizt við, að hún komi ekki að fullu gagni til þessara hluta.

Mér dettur ekki í hug, að þeim, sem ákváðu þetta nú, gangi neitt misjafnt til, heldur munu þeir aðeins hafa ætlað að lækka nokkuð stofnkostnað með þessu móti. En það hefnir sín fljótlega og verður bara dýrara, og þannig má ekki til takast um mál, sem grípur jafnósegjanlega mikið inn í líf fólksins í landinu.

Þá vil ég minnast á annað atriði, sem ekki snertir þessa till. þó beinlínis, en það er þetta, að sú orka, sem notuð hefur verið til súgþurrkunar hér, hefur verið seld með ljósaverði, eða fyrir 25–30 aura kw. Munu þess engin dæmi finnast annars staðar. En þetta veit ég t. d. um að tveimur bændum hefur verið gert að greiða, eða 25 aura á kw. í sumar og þar áður 30 aura. — Slíkt nær vitaskuld engri átt; og vildi ég benda á þetta, enda þótt hér sé um framkvæmdaratriði en ekki löggjafaratriði að ræða. Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta. Ég vænti þess, að Alþingi taki á þessu máli með góðvild og af fullum skilningi. Hér eiga margir hlut að máli nú þegar og vonandi verða þeir þó enn fleiri síðar. Er það að lokum tillaga mín, að þessu máli verði að umræðum loknum vísað til allshn., og vænti ég þess, að hún taki því af fullum skilningi og afgreiði það eins fljótt og hægt er.