09.03.1950
Sameinað þing: 32. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í D-deild Alþingistíðinda. (3895)

126. mál, útflutningur veiðiskipa

Flm. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. Þetta mál er nú orðið hv. þm. kunnugt af blaðagreinum, sem um það hafa verið skrifaðar nú að undanförnu. Það er öllum kunnugt, að á síðastliðnu sumri var meðal annars farið með fjögur skip til Grænlands til þess að stunda þar veiðar. Þegar veiðum lauk, fengu skipverjar tilkynningu um það að sigla þessum 4 skipum til Nýfundnalands, og mundi þar verða gert upp við þá kaup. Fyrst var svo siglt til lítillar franskrar nýlendu, en síðan til Nýfundnalands, en síðan eru þar seldar eftirstöðvar veiðinnar, en skipverjar sendir heim til Íslands flugleiðis, án þess að upp væri gert við þá, en þeir áttu ógreitt kaup, er nam um 354 þús. kr., en auk þess hvíldu á skipunum sjóveð, sem nema töluverðum upphæðum, og lausaskuldir. Nú er það náttúrlega ekkert nýtt, að útgerðarmenn eigi erfitt með að borga skuldir sínar, eftir allan síldveiðibrestinn, sem þeir hafa orðið fyrir undanfarin ár. En í þessu tilfelli hefur það, sem fiskað hefur verið, verið selt gegn greiðslu í erlendri mynt, án þess að gjaldeyrisyfirvöldunum hafi verið gerð nokkur grein fyrir því og án þess að skipverjum hafi verið greitt nema að litlum hluta. Skipverjar höfðu því snúið sér til Alþýðusambands Íslands, og fulltrúi þess hefur átt tal við ríkisstj. um fyrirgreiðslu í þessu máli, en án árangurs. Leið svo fram í janúar, að ekkert gekk í þessu máli, en þá barst frétt um það. að forsætisráðherra Nýfundnalands hafi getið um það í nýársboðskap sínum sem merks viðburðar, að tveir merkir útgerðarmenn með 4 eikarskip væru komnir af Íslandi til þess að kenna Nýfundnalandsmönnum fiskveiðar, einkum síldveiðar með nýtízku veiðarfærum. Síld væri mikil þar fyrir landi, en möguleikarnir ekki notaðir, en á þessu mundi nú verða breyting og möguleikarnir, sem væru mjög miklir, yrðu notaðir framvegis, og væru þetta þáttaskipti í sögu Nýfundnalands. Mundu Íslendingarnir kenna þeim nýtízku veiðiaðferðir, sem miklar vonir væru tengdar við. Af þessu verður ekki annað séð, en að þessir útgerðarmenn ætli sér að selja kunnáttu íslenzkra veiðimanna til erlendra keppinauta.

Nú er það svo, að enn hefur ekki verið greitt kaup til þeirra sjómanna, sem voru á skipunum síðastliðið sumar, en þó hefur komið tilboð frá útgerðarmanninum, þar sem hann bauðst til þess að greiða hluta af sjóveðunum og kaupið ásamt einhverju af öðrum skuldum gegn því, að hann fengi útflutningsleyfi fyrir skipin. Nú má það vera, að í einstökum tilfellum sé útflutningur gamalla skipa réttlætanlegur, en ekki í þessu tilfelli. Skipastóll Ísafjarðar er ekki stór, og hann hefur farið minnkandi undanfarið vegna síldveiðibrests, en Ísfirðingar eiga alla sína afkomu undir sjómennsku, svo að það hvílir bein skylda á Alþingi að bæta úr atvinnu kaupstaðarins, ef þetta umrædda leyfi verður veitt. Að smálestatölu eru þessi 4 skip upp undir helmingur af öllum skipastóli Ísafjarðar, og sjá þá allir, hve geysilegu atvinnutjóni slíkur brottflutningur mundi valda. Þá virðist einnig það fordæmi, sem þetta mundi skapa, vera mjög varhugavert, því að þetta mundi gefa fordæmi fyrir útgerðarmenn, sem illa væru stæðir, að flytja útgerðina úr landi og þá helzt svo langt í burtu, að vafasamt er að fá skipin heim aftur. Mundu þeir svo óska eftir útflutningsleyfi fyrir þeim og borga hluta af áhvílandi skuldum. Þetta mundi skapa fordæmi fyrir ófyrirleitna menn til þess að flytja atvinnutæki þjóðarinnar úr landi. Við flm. þessarar till. álítum, að það komi ekki til nokkurra mála að veita þetta útflutningsleyfi. Nú vil ég taka það fram, að ég hef ekki vitað, að neinn bilbugur væri á hæstv. sjútvmrh. að veita slík leyfi, en við höfum talið það rétt, að álit Alþingis á þessu máli kæmi í ljós. Við flm. teljum nauðsynlegt að gera tilraun til þess að ná skipunum til landsins aftur, þó ekki væri til annars en að fyrirbyggja það fordæmi, sem það mundi skapa, ef það yrði ekki gert. Þá höfum við einnig talið rétt að setja í till. ákvæði um að tryggja skipverjum greiðslu á kaupi þeirra frá síðastliðnu sumri. En ef ríkisstj. skærist í leikinn um að fá þau heim, þá yrði að gera samning við veðhafa og ábyrgjast einhverja borgun til skipverja, en ef skipin yrðu seld á uppboði, þá mundu boðin í þau nægja fyrir sjóveðum, kaupgreiðslum og ef til vill fleiri greiðslum, því að eins og kunnugt er, þá eru þau vel fallin til síldveiða og mundu því vera í háu verði, þegar síldveiðarnar fara að glæðast á ný.

Ég hygg svo, að ekki sé ástæða til þess að hafa þessa greinargerð lengri, en vil vísa til grg. sjálfrar till. á þskj. 374, en ég vil mælast til þess, að umr. verði ekki lokið nú, heldur verði málinu frestað og vísað til hv. allshn. til athugunar.