09.03.1950
Sameinað þing: 32. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í D-deild Alþingistíðinda. (3898)

126. mál, útflutningur veiðiskipa

Flm. (Finnur Jónsson):

Hv. þm. N-Ísf. (SB) hefur nú gefið hér sína útgáfu af þessari útgerðarsögu. Ég stillti að öllu leyti orðum mínum í hóf í minni framsöguræðu og reyndi að gefa þm. eins hlutlausa frásögn af þessu og ég gat. Hv. þm. N-Ísf. var að tala um, að um þetta mál hefðu farið fram mikil blaðaskrif. Ég hef ekki orðið var við, að um þetta mál hafi verið skrifað nema í eitt blað í höfuðstaðnum, fyrir utan eina litla svargrein, sem einn útgerðarmaður, Óskar Halldórsson, skrifaði í Morgunblaðið. Að öðru leyti hefur þetta einkennilega mál verið látið órætt, sérstaklega af blöðum Sjálfstfl. Ég hef talið, að það væri að mörgu leyti athugavert fyrir þá, sem vilja efla atvinnuvegina hér í landi, ef skip væru flutt úr landi á þann hátt, sem hér hefur átt sér stað, og það hefði ekki vakið eftirtekt eða verið rætt í blöðum landsins, að farið væri með atvinnutækin burt úr sjávarplássunum á þann hátt, sem hér hefur verið gert. Það er þess vegna villandi hjá hv. þm. N-Ísf., þegar hann kemst þannig að orði, að mikið hafi verið skrifað um þetta mál. Það hefur þvert á móti verið lítið skrifað um þetta mál, sem varðar þó atvinnu eins kaupstaðar og skapar fordæmi fyrir alla landsmenn.

Hv. þm. N-Ísf. vildi reyna að koma sökinni á skipverja þessara veiðiskipa, að þeir hafi neitað að veiða við Nýfundnaland fyrir heimferðarkostnaði og þess vegna verið sendir heim með flugvél. Ég er að mörgu leyti þakklátur hv. þm. Barð. fyrir þær ágætu upplýsingar, sem hann gaf í þessu máli, þó að þess hafi að vísu ekki þurft með mín vegna, því að mér er það eins vel kunnugt og honum. En mér er ánægja að heyra hann lýsa rétti skipverja á þá leið, að þeir hafi haft fullt leyfi til þess, þegar þeir komu í útlenda höfn, að ganga af skipunum og krefjast þess, að þeir fengju borgað sitt kaup og borgaðan heimferðarkostnað. Það var aðeins sá galli á því, að þó að þeir hefðu viljað nota sér þennan rétt, þá voru ekki líkur til þess, að það kæmi þeim að haldi, af því að skipin sigldu í höfn þar, sem ekki var neinn fulltrúi Íslands fyrir. Eða vill hv. þm. Barð. halda því fram, að það sé íslenzkur ræðismaður á smáeynni St. Pierre fyrir sunnan Nýfundnaland, en það er fyrsta höfnin, sem þeir komu til frá Grænlandsmiðum, fyrir utan aðra höfn., sem liggur stutt norður frá Nýfundnalandi og þeir komu við í til að taka olíu?

Annars var ýmislegt furðulegt, sem kom fram í ræðu hv. þm. N-Ísf. og stafar af ókunnugleika á skipasiglingum eða af því, að hann vill gefa þm. sem skakkasta mynd af þessu öllu saman. Þegar skipin komu til Nýfundnalands, þá voru þau búin að selja sumaraflann, að undanteknum 80 smálestum af fiski, og enn fremur mun standa þannig á í Nýfundnalandi á þessum tíma árs, að þar er ekki vertíð. Þess vegna er það furðulegt, þegar hv. þm. N-Ísf. ætlar að telja mönnum trú um, að eiginlega hafi það verið stytzta leiðin til þess að koma heim með skipin og ódýrast að fara til Nýfundnalands. Það er kunnugt, að skipin voru að veiðum við Grænland til þess að sigla þeim heim þaðan, og þurfti ekki að fara fram nein aðgerð á þeim, af því að það gat ekki hafa farið fram skoðun á skipunum, sem sigla til eins árs. Um áramótin 1948–1949 fór fram aðalskoðun á þessum skipum, og hún átti ekki, frekar en á öðrum skipum íslenzkum, að fara fram aftur fyrr en um áramótin 1949–1950. Þess vegna þurfti ekki nein skoðun eða höfuðaðgerð að fara fram á þeim, önnur en daglegt viðhald. Þetta veit ég, að hv. þm. Barð. er vel ljóst, þó að hv. þm. N-Ísf. beri kannske ekki mikla respekt fyrir hans þekkingu á þessu sviði. Hvað kostaði að senda mennina heim með flugvél? Það kostaði 100 þús. kr., og dettur hv. þm. N-Ísf. í hug, að það hefði ekki reynzt ódýrara að sigla skipunum heim frá Grænlandi og jafnvel frá Nýfundnalandi, en að senda mennina heim með flugvél? En einmitt það, að skipaeigandinn hefur ráð á því að senda mennina heim með flugvél, en siglir skipunum ekki heim, sýnir, að hann ætlaði sér ekki heim með skipin, og ég hygg, að það sé alveg ómögulegt að færa sönnur á það gagnstæða. Eftir því, sem ég veit bezt, þá er aðalvertíð við Nýfundnaland eftir áramót, og ég hygg, að þessi skip hafi verið lítið hreyfð síðan þau komu þangað vestur. Mér er tjáð, að eitt þessara skipa hafi farið eina veiðiferð fyrir áramót og síðan ekki sögunni meir. Hvað gerzt hefur í þessu þar á eftir, veit ég ekki, en ég hygg, að þessi skipshöfn sé ekki komin heim enn þá. — Ég hygg, að í þeirri grg., sem fylgir þessari till., standi allt óhrakið, og í grg. er fylgt þeim upplýsingum, sem skipverjar hafa gefið Alþýðusambandi Íslands. Þó að það sé rétt, sem hv. þm. Barð. upplýsir, að skipverjar geti gengið af skipi í erlendri höfn, þegar þeirra ráðningartími er úti, þá hygg ég, að áhöfnin geti ekki neitað að sigla skipinu til þeirrar hafnar, sem skipstjórinn vill sigla skipinu til. Ég hygg, að það mundi vera skoðað sem uppreisn og varðaði fangelsisvist, ef þeir krefðust þess, að yfirmaður eða skipstjóri sigldi sinu skipi heim til Íslands, þegar skipstjóri segði: Við siglum til Nýfundnalands. — Það er þess vegna algerlega út í loftið, ef hv. þm. N-Ísf. vill fara að ráðast á skipverja þessara skipa og kenna þeim um það, að skipunum var siglt til Nýfundnalands, ætlandi svo þar á eftir að kenna þeim um það að útgerðarmaðurinn fékk ekki fisk í skipin til þess að sigla með hann til Englands. — Ég hef heyrt ýmislegt um meðferð skipverja í Nýfundnalandi, en skal ekki hafa það eftir að þessu sinni.

Það er furðulegur málflutningur hjá hv. þm. N-Ísf., þegar hann heldur því fram, að ekki hafi átt sér stað nein vanskil með gjaldeyri í þessu sambandi. Það er sannanlegt, að viðkomandi útgerðarmaður kom hér til landsins með nokkra fyrirframgreiðslu út á væntanlega veiði við Grænland á s. l. vetri og hafði ekki skilað þeim gjaldeyri til bankanna. Hann hafði heldur engin skil gert fyrir þeim gjaldeyri, sem hann hafði fengið fyrir þann fisk, sem hann aflaði við Grænland, og þó að hann kynni að vilja skila þessum gjaldeyri, sem hann hefði átt að skila fyrir fiskinn í höfn, af söluandvirði skipanna, ef hann flytti þau úr landi, þá er það vitanlega allt annað mál. Ég hygg, að það sé sannast mála, að afurðir þær, sem skipin fengu við Grænland, hafi verið seldar fyrir erlendan gjaldeyri og hvorki hafi skipverjar fengið greiddan sinn hlut úr þeim né heldur hafi verið greidd sú úttekt, sem tekin var hér í Reykjavik, áður en skipin lögðu úr landi til þessarar farar, m. ö. o., að yfirleitt hafi það. sem skipin öfluðu, verið selt, en þeir, sem áttu að fá eitthvað út úr því, hafi yfirleitt ekki fengið neitt. Setjandi svo þetta í samband við það, að reynt er að hæla útgerðarmanninum og verzla við ríkisstj. um það að fá skipin flutt úr landi gegn því að greiða einhvern hluta af skyldunni, þá getur hver efazt um það sem vill, að hér hafi verið um nokkurn flótta að ræða úr landi með skipin. Mér er alveg ljóst, sem hv. þm. Barð. tók fram, að útgerðarmenn hafa leyfi til að sigla skipum sínum um öll heimsins höf og að þar er ekkert til hindrunar. Hv. þm. Barð. tók fram, að Norðmenn sigldu skipum sínum um öll heimsins höf til að bjarga sínu landi. Þetta er alveg rétt, það gera þeir með farþegaskip og veiðiskip að nokkru leyti. En ég held nú ekki, að Ísfirðingar líti yfirleitt svo á, að þetta ferðalag á þessum ísfirzku skipum sé nein björg fyrir Ísafjarðarkaupstað eða landið í heild, sem og hefur komið í ljós, þar sem nú er komið á daginn, að ætlunin er ekki að koma með þessi skip heim aftur, heldur selja þau burt úr landinu. Mér og mörgum fleirum finnst þetta undarlegt bjargráð, en sennilega heldur hv. þm. N-Ísf., að það muni geta bjargað atvinnuvegunum heima, að skipin eru flutt í burt. Hv. þm. Barð. nefndi sem dæmi þess, að skip væru flutt úr landi og enginn haft neitt við það að athuga, að gamli Lagarfoss hefði verið fluttur úr landi. Ég held, að Eimskip hafi á löglegan hátt fengið útflutningsleyfi fyrir því skipi, og held, að það sé ekki sambærilegt, því að þótt sum þessi skip séu nokkuð gömul, þá eru þau ekki ætluð til þess að höggva þau upp, því að ef það er rétt, sem hv. þm. N-Ísf. sagði, að eigandinn teldi sig geta borgað 3–4 millj. kr., ef hann fengi útflutningsleyfi fyrir þessum skipum, mun vera nær lagi, sem forsætisráðherra Nýfundnalands sagði, að skipin væru góð og vel útbúin, en verið væri að flytja þau úr landi til þess að höggva þau upp. Af þessu má sjá, að hér er ekki hægt að gera neinn samanburð á, hvort ónýt skip, sem ekki borga sig lengur, eru flutt úr landi eða farið er að flytja góð og hentug veiðiskip burt úr landinu.

Ég skal viðurkenna, að það er talsverður vandi á höndum um þetta mál. Það þarf að sjálfsögðu nokkra lagni og vilja hjá ríkisstj. til þess að koma því þannig fyrir, að þessi skip komist til landsins án mjög mikils tilkostnaðar. Ég veit ekki, hve miklu kann að hafa verið hlaðið á skipin þarna úti af kostnaði, en þó eru ekki líkur til, að það sé mjög mikið, vegna þess að skipshafnirnar voru sendar heim eftir ekki mjög langan tíma frá Nýfundnalandi, svo að kostnaðurinn getur varla verið mikið annað en geymslukostnaður. Ég hygg, að það sé fjarri öllum sanni, að mjög mikill kostnaður sé því samfara að sigla skipunum heim, og sé þá gert ráð fyrir öðrum farmgjöldum en gert er ráð fyrir á þessum tímum. Það stendur nú ekki í till., að ríkið greiði skipverjum kaup þetta, heldur er ætlazt til, að ríkisstj. með samkomulagsumleitunum reyni hvort tveggja í senn, að koma skipunum heim og tryggja skipverjum greiðslu á kaupi þeirra, því að okkar áliti mundi með lagni og vilja vera hægt að gera hvort tveggja án útgjalda fyrir ríkissjóð.

Ég sagði áðan, að ég teldi það vera rétt, að nokkuð mikill vandi væri á höndum um þetta. En ég hygg, að hins vegar mesti vandinn væri að gefa útflutningsleyfi fyrir sölu á þessum skipum úr landinu vegna fordæmisins, sem það hlyti að skapa, og ég er viss um, að þótt hv. þm. Barð. hafi gert ýmsar aths. út af flutningi þessarar till., sér hann, hvers konar fordæmi þetta gæti skapað að öðru leyti. Vitanlega er það nokkuð nýtt í sögunni, ef ríkisstj. færi að skipta sér af heimflutningi skipa úr öðru landi, en hér stendur alveg sérstaklega á. Ég held að auk þess að þetta yrði til þess að gefa þeim, sem vildu nota sér slíkt til eftirbreytni, nokkuð undir fótinn, yrði ekki komizt hjá því, að Ísfirðingar gengju nokkuð eftir því, að sú ríkisstj., sem gæfi útflutningsleyfi fyrir þessum skipum, sæi Ísafjarðarkaupstað fyrir öðrum skipum í staðinn. Og þó að hv. fyrrverandi forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarkaupstaðar yrði kannske feiminn við að bera þá till. fram á þingi, mundi ég ekki vera feiminn við að gera það, og ég hygg, að til þess hefðu Ísfirðingar fullan rétt, eftir að búið væri að gefa útflutningsleyfið. Annars er það svona ný tegund atvinnurekstrar, sem hv. þm. N-Ísf. virðist telja, að okkur ríði nú mest á í þessu landi, sem sé að flytja beztu veiðiskipin burt úr landinu. Ég skal ekki leiða hér getur að því, ilvaða ástæður liggja til þess, að hann gerist talsmaður fyrir slíkum atvinnurekstri. En ég þykist að minnsta kosti gera skyldu mína fyrir það fólk á Ísafirði, sem ég er fulltrúi fyrir á Alþ., að koma í veg fyrir, að inn á slíka tegund atvinnurekstrar verði farið.