09.03.1950
Sameinað þing: 32. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í D-deild Alþingistíðinda. (3899)

126. mál, útflutningur veiðiskipa

Sigurður Bjarnason:

Ég þóttist ekki í þeirri skýrslu, sem ég gaf um þetta mál áðan, hafa gefið hv. 1. flm. þessarar till. ástæðu til þess að telja sig meiddan og snúa við ummælum mínum með dylgjum og hártogunum, eins og hann hefur gert í þessari ræðu sinni. En ég verð að segja það, að ég er honum sammála a. m. k. um eitt í ræðu hans, og það er það, sem hann sagði undir lok hennar, það, að hann væri ekki feiminn. Mjög feiminn maður flytur ekki mál sitt á þá lund, sem hv. þm. Ísaf. (FJ) gerði nú. En það er annað, sem ég hygg, að hv. þm. sé þrátt fyrir allt dálítið feiminn við, og það er sannleikurinn í þessu máli. Hv. þm. fór að tala hér í þingmálafundarstíl um brottflutning atvinnutækja og sveigði í því sambandi að mér sem fyrrv. forseta bæjarstjórnar á Ísafirði. Ég veit ekki betur, en að hann og hans flokkur hafi unnið það frægðarverk í byrjun stríðsgróðatímabilsins að selja stórvirkasta atvinnutækið á Ísafirði burt úr bænum til Reykjavíkur, sem á nóga togara. Hann var ekki feiminn þá, þegar verið var að selja úr litlu bæjarfélagi stórvirkt atvinnutæki, sem mesta möguleika veitti til öruggrar atvinnu í bænum. Nei, hann var ekki feiminn þá. Hann er feiminn við sannleikann nú. Hann minntist á það, að þessi skipaflótti, sem hann kallaði svo, hefði ekki verið neitt ræddur í blöðum Sjálfstfl. Þetta er ekki rétt, hann hefur verið ræddur þar. Óskar Halldórsson ritaði grein um Björgvin Bjarnason í Mbl. í haust, og sjómaður vestur á Ísafirði skrifaði einnig varnargrein gegn þeim áróðri, sem hefur verið haldið uppi í blaði Alþfl. gegn Björgvin Bjarnasyni. Og fyrst hv. þm. talaði um stjórnmál, vil ég láta hv. þm. vita það, hvað var aðalkosningamál hv. þm. á Ísafirði í haust og Alþfl. í kosningabaráttunni í vetur. Hvað halda þm., að það hafi verið? Það var þetta mál, skipaflóttinn, sem hv. þm. kallaði svo, sem var lamb fátæka mannsins, Alþfl., í kosningunum. Á því átti að græða. Með margs konar blekkingum um þetta mál átti að vinna fólkið á Ísafirði, sem eðlilega hlaut að harma, að þessi skip fóru úr bænum, til fylgis við ákveðinn flokk. Ég segi, að þetta var ekki drengilega gert, og svarið var eins og til var stofnað, og ég býst við, að hv. þm. muni það frá síðustu kosningum. Alþbl. virðist hafa tekið ástfóstri við þetta persónulega rógsmál og birtir það yfirleitt á fyrstu síðu. Þetta ástfóstur Alþýðublaðsins hjálpaði fátæka flokknum hér svipað og á Ísafirði, að fella hann í trausti hjá þessari þjóð.

Ég skal svo koma að efninu. Hv. þm. sagði, að ég hefði reynt að koma sökinni á skipverja fyrir það, að þeir vildu ekki veiða við Nýfundnaland, eins og sakir stóðu til. Ég vil um þetta vitna til fyrri ummæla minna, en vil bæta því við, sem ég sagði ekki áðan, að áður en haldið var frá Grænlandsmiðum til Nýfundnalands, var þeim skipverjum, sem það vildu, boðið far heim með skipinu Eldborg, en þeir kusu að fara á Nýfundnalandsmið. Ég vil ekki lá skipverjum þetta. Vertíðin hafði verið rýr, og þeir vildu gjarnan freista þess að bæta afkomu sína. Ég hef rætt við menn, sem voru í þessum flota, og spurt þá um framkomu útgerðarmannsins og afstöðu í þessu. Voru svör þeirra í samræmi við það, sem ég hef greint hér, og þykir mér það bókstaflega leiðinlegt, af því að hv. þm. Ísaf. (FJ) er Ísfirðingur eins og ég, að hann skuli vera með dylgjur um meðferðina á skipverjum. Þeir skipverjar, sem ég hef talað við, hafa ekki verið með neinar ásakanir á útgerðarmanninn fyrir meðferð hans á sér. Þeir höfðu orðið fyrir margháttuðum vonbrigðum í sambandi við þessa vertíð, og það sé fjarri mér að áfellast sjómennina fyrir það, þó að þessi vonbrigði, bæði á Grænlandsmiðum og Nýfundnalandsmiðum, hefðu fremur ýtt undir þá ákvörðun þeirra að fara heim en að halda áfram veiðum við Nýfundnaland. En ég vil ekki, að hv. þm. Ísaf. reyni að koma því inn hjá þingheimi, að ég sé að skjóta mér á bak við skipshafnirnar á skipunum. Ég hef sýnt fram á, að ekki er um neinn flótta að ræða með þessi skip, en það er kjarninn í málflutningi hv. þm. Ísaf., að hér sé um skipulagðan flótta að ræða og sviksamlegan tilgang.

Hv. þm. sagði, að það væri meiningin að selja þessi skip. Ég hef ekki orðið var við, að nein umsókn hafi borizt í þá átt. Í bréfi til dómsmrn., sem ég hef með höndum, er sótt um leyfi til búferlaflutninga, en ekki minnzt á sölu, svo að ég held, að þetta sé misskilningur hjá hv. þm. Ísaf. Það er ekki reiknað með sölu, heldur heimild til þess að flytja búferlum.

Það var líka mikil rangfærsla hjá hv. þm. að halda því fram, að ég hefði verið að reyna að telja þm. trú um, að stytzta leiðin til Íslands frá Grænlandsmiðum sé um Nýfundnaland. Skildi þm. þannig ummæli mín í fyrri ræðu minni, að það væri styttra frá Grænlandsmiðum um Nýfundnaland til Íslands en beint frá þessum miðum til Íslands? Ég verð að segja, að þm. er þá eitthvað farið að förlast. Ég held, að enginn hafi skilið ummæli mín á þá lund nema þessi hv. þm.

Hv. þm. vildi gera lítið úr þekkingu minni á skipum og skaut sér á bak við hv. þm. Barð. (GJ). Ég verð að segja, að það er djörf staðhæfing, þegar því er haldið fram, að engin viðgerð hafi verið nauðsynleg á skipunum eftir vertíðina við Grænland og þessa legu við Nýfundnaland. Hann þekkir þessi skip eins og ég og veit, að þetta eru gömul skip og vélarnar í þeim mjög lélegar. Hann veit, að hér, þar sem um jafnlanga vegalengd er að ræða, er ekki eins og að fara um pollinn á Ísafirði. Allir, sem þekkja nokkuð til skipaviðgerða, vita, að ekki er lagt í slíka siglingu nema athugun fari fram á skipum og vélum, ekki sízt ef þau eru gömul og úr sér gengin. — Það er líka fráleitt að halda fram, að það sé ódýrara að fara með skipunum heim nú vestan frá Nýfundnalandi en að kaupa flugferð fyrir skipverja. Þetta er líka staðhæfing, sem stingur svo í augun, að allir þm. hljóta að sjá, að hún hefur við engin rök að styðjast.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta miklu fleiri orðum. Ég gerði grein fyrir því í fyrri ræðu minni, að viðkomandi útgerðarmaður mundi gera full skil fyrir þeim gjaldeyri, sem hann hefði aflað í þessari ferð, og sé ég ekki ástæðu til að ræða það atriði nánar. Já, það er rétt hjá hv. þm. Ísaf., að bæði þessi útgerðarmaður og ýmsir fleiri hafa lent í ýmsum vanskilum við lánastofnanir sínar og jafnvel við skipverja. En það má hver lá mér sem vill, þó að mér verði óglatt, þegar ég heyri þm. Ísaf. krossa sig bak og fyrir vegna slíkra vanskila. Ég vék að því í upphafi, hvernig ástandið er í útgerðinni á Ísafirði. Þekkir þm. Ísaf. ekkert annað útgerðarfyrirtæki, sem skuldar og er í vanskilum og það miklum vanskilum, ekki aðeins við lánastofnanir, banka og sjóði, heldur við sjómenn á skipunum? Mér þykir mikið, ef hv. þm. Ísaf. þekkir ekki a. m. k. eitt slíkt fyrirtæki, stórt fyrirtæki, sem á mörg skip. Ég álít það raunar of lítilsiglt til þess, að ég taki þátt í því, að vera að bera saman vanskil einstakra útgerðaraðila í einu bæjarfélagi, ekki sízt manns eigin bæjarfélagi. Ég vil því ekki leika þann leik eftir hv. þm. Ísaf., en þeir kasti ekki fyrsta steininum, sem búa sjálfir í glerhúsi.

Ég vil svo vænta þess, að sú hv. n., sem fær málið til athugunar, leiti þeirra upplýsinga, sem nauðsynlegar eru, svo að hv. þm. geti tekið afstöðu til þess byggða á réttum upplýsingum, en ekki dylgjum og rógi, sem hv. þm. Ísaf. hefur þóknazt að leiða inn í umræðurnar.