15.12.1949
Efri deild: 14. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1534 í B-deild Alþingistíðinda. (39)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh., sem nú er hér viðstaddur, hvenær við getum vænzt þess, að lagðar verði fram hér á Alþ. till. í dýrtíðarmálunum eða a. m. k. þeim hluta þeirra, sem mest er aðkallandi, en það eru till. um ráðstafanir til þess að koma bátaflotanum af stað og þann ágreining, sem á sér stað í sambandi við hann. Það hefur verið venja, að þessar till. hafa komið nokkuð seint fyrir jólin, og þær hafa komið helzt til seint, en nú er farið að líða að jólum, og er stutt þar til jólafrí hefjast, ef um jólafrí verður að ræða. Þess vegna er þessi fyrirspurn borin fram, að ýmsir þm. hafa áhyggjur af því, ef dráttur verður á því úr þessu, að till. komi fram. Ég vildi því leyfa mér að spyrjast fyrir um það, hvenær menn geta vænzt þess, að þessar till. verði lagðar fyrir Alþ.