22.03.1950
Sameinað þing: 36. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í D-deild Alþingistíðinda. (3919)

127. mál, innheimta á sölugjaldi bifreiða

Flm. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. Það er ekki nema gott til þess að vita, að rannsókn skuli vera hafin í þessu máli. Hins vegar er það vitað, að annaðhvort mun það hafa verið tollstjóri eða lögreglustjóri, sem átti að innheimta þennan skatt. Mér skilst reyndar, að það hafi verið öllu frekar lögreglustjóri. Og það kann að vera, að það sé góður síður að láta menn rannsaka sín eigin mál. En í þessu tilfelli virðist, að svo hafi verið gert af hálfu hæstv. ríkisstj. — Ég skal ekki neitt deila um það, hverjum þetta ólag er að kenna, að innheimta þessa gjalds hefur fallið niður af þessum bifreiðum. En víst er það, að lögreglustjóra bar að innheimta þau gjöld samkv. lögum. Og það er ekki nema gott um það að segja, að hann gefi hæstv. ríkisstj. skýrslu um það, hvernig á því stendur, að hann ekki hefur innheimt þessi gjöld, og að þá um leið komi í ljós, hve miklu þessi gjöld hefðu numið, sem ekki hafa verið greidd. — En hitt er það svo, að úr því sem komið er, þá vil ég halda fast við þessa þáltill. og álit rétt, að hæstv. Alþ. fái að vita, hvernig á þessum mistökum kann að standa.