04.05.1950
Sameinað þing: 44. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í D-deild Alþingistíðinda. (3932)

138. mál, læknabifreiðar

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð fyrir þessari till. Hún skýrir sig að mestu leyti sjálf, og nánari upplýsingar er að finna í fskj., sem prentuð eru á þskj. 531.

Ekki verður um það deilt, að læknum er mjög nauðsynlegt að hafa sæmilegar bifreiðar til umráða til þess að geta sinnt læknisstörfum innan héraðs síns, hvort heldur sem er í bæ eða sveit. En þannig er ástatt í þessu efni á því svæði, sem Læknafélag Reykjavíkur tekur til, að af þeim bifreiðum, sem starfandi læknar hafa til umráða, er nokkuð yfir 20 meira en 8 ára og allt upp í 16–17 ára. Það liggur í augum uppi, að slíkum farartækjum er ekki að treysta. Slíkar bifreiðar eru oft í lamasessi, auk þess sem kostar stórfé að halda þeim við. Auk þessara 20 lækna, sem hafa bifreiðar yfir 8 ára, eru 14 læknar, sem enga bifreið hafa.

Það er því alveg ljóst, að þetta skapar mikla erfiðleika fyrir lækna í starfi þeirra og mikla erfiðleika fyrir sjúkrasamlög, sem við þá þurfa að semja. Við slíka samninga reyna læknar að sjálfsögðu að koma ár sinni svo fyrir borð, að þeir fái upp borinn þennan mikla bifreiðakostnað. Hlýtur þetta því óhjákvæmilega að hafa í för með sér hækkandi gjöld. Ég skal með leyfi hæstv. forseta lesa upp nokkur orð um þetta mál úr bréfi frá Sjúkrasamlagi Reykjavíkur. Þar segir svo:

„Vér þurfum litlu að bæta við þau rök, sem fram koma í greinargerðinni, en viljum lýsa því yfir sem skoðun vorri, að bílakostur lækna sem heild sé gersamlega óviðunandi og hafi verið það lengi. Hafa mál þessi oft verið til umræðu hjá samlagsstjórninni síðustu árin, og hefur samlagið, ásamt Tryggingastofnuninni, reynt að styðja tilraunir lækna til að fá bætt úr því vandræðaástandi, sem hér er um að ræða. Er það ljóst, að hér fara saman hagsmunir samlagsins og læknanna, því að auk þess, sem bílavandræðin gera hið erfiða starf læknanna enn þá erfiðara, þá gera þau það einnig miklum mun dýrara en vera þyrfti, ef vel væri fyrir þessum málum séð. Hefur þetta valdið miklum erfiðleikum síðustu árin í samningum vorum við lækna, enda leit svo út um s. l. áramót, að samningar mundu beinlínis stranda af þessum sökum. En þó að betur tækist til en á horfðist, meðal annars af því, að þér léðuð máls á því á fundi, sem þér sátuð með samninganefndum Sjúkrasamlags Reykjavíkur og Læknafélags Reykjavíkur, að flytja málið á þingi, þá er það víst, að vér urðum að sæta mun verri kjörum vegna ástandsins í bílamálunum, og eins hitt, að samningsaðstaða vor næst þegar semja þarf verður margfalt verri, ef ekki fást verulegar úrbætur.“

Ég þori ekki að fullyrða, hvað miklu það munar í krónum, hversu samningar við lækna hafa orðið fjárfrekari af þessum sökum, en það er áreiðanlega mjög há upphæð.

Ég hef síðan ásamt heilsugæzlustjóra og forstöðumanni sjúkrasamlagsins rætt við fjárhagsráð, sem taldi sig hafa skilning á þessu efni og vilja gera það, sem fært er, einkum ef hæstv. ríkisstj. sæi sér fært að láta sinn vilja koma í ljós og styðja till. á þann hátt, að mætt verði þessum eðlilegu óskum.

Ég skal svo ekki fjölyrða meir um þessa till. Ég skal aðeins geta þess, að ég hef lista yfir þá lækna, sem eru bifreiðarlausir eða eiga eldri bifreið en 8 ára, sem ég get afhent n., sem fengi málið til meðferðar.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að umr. verði frestað og málinu vísað til allshn. til athugunar.