12.01.1950
Neðri deild: 28. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í B-deild Alþingistíðinda. (394)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þetta frv. var til meðferðar í hv. Ed. s.l. nótt og tók þar þeim breyt., að till., sem hv. þm. v-Húnv. (SkG) flutti hér í Nd. og var felld með jöfnum atkv., um það að heimila ríkisstj. að bæta við fiskábyrgðir þær, sem ríkissjóði er ætlað að bera, ábyrgð á bátalifur, þannig að hún gæti skilað kr. 1,30 fyrir hvern lítra af lifur, — þessi till. var tekin upp aftur í Ed. og samþ. þar, en síðar var við 3. umr. samþ. brtt., sem miðar að því að binda ábyrgðina á þessari vöru við ákveðið lýsismagn, þ.e.a.s. 60% lýsismagn af 1. flokks lýsi, og lifur, sem inniheldur minna lýsismagn, skuli tryggja með hlutfallslega lægra verði, miðað við lýsismagnið. Þessi till. um að bæta lifrinni ofan á ríkisábyrgðina er að mínum dómi ekki rétt heppileg. Í fyrsta lagi má geta þess, að útvegsmenn hafa aldrei farið fram á ábyrgð á lifur. Þeir hafa hins vegar farið fram á ríkisábyrgð á fiskverði, en í kröfum sínum og samtölum varðandi lifur báðu þeir aldrei ríkisstj. að ganga í ábyrgð á því sviði, og verð ég að segja, að það er nærri því kátbroslegt að vera að troða upp á útvegsmenn ríkisábyrgð á vöru, sem þeir hafa alls ekki farið fram á, að ríkið láti í té. En látum það nú gott heita. Ég hef reynt að gera mér grein fyrir, hvað þessi ábyrgð mundi kosta ríkissjóð. Það er að vísu mjög erfitt, en miðað við normalafla geri ég ráð fyrir, að kostnaðurinn gæti orðið frá 11/2 til 2 millj., ef aðeins er miðað við tímabilið til 15. maí, en allmiklu meiri, eða upp undir 3 millj., ef um allt árið er að ræða. Það er nú sá partur málsins. Hitt var aftur á móti ósk útvegsmanna, að bátalifrin væri tekin á svo kallaðan frílista, og það taldi ég ekki ósanngjarnt, því að þá kæmi varðandi framkvæmd á þessu máli síður til árekstra, ef sú leið yrði farin. — Ég er hálfhræddur um, að þeir þm., sem hafa flutt þessa till., um að taka bátalifur upp í 1. gr. með ákveðnu verði fyrir hvern lítra, hafi ekki gert sér fyllilega grein fyrir því, hvernig framkvæmdin er á fiskábyrgðarl. Eins og hv. þm. vita, er það nefnd, fiskábyrgðarn., sem hefur með höndum að aðstoða með framkvæmd l. og að því er snertir útvegsmenn með útflutningsuppbætur. í sambandi við þessi lög hefur það verið svo, að þeim hafa alltaf fylgt sönnunargögn fyrir því, að varan hafi verið framleidd og henni afskipað, svo sem farmskjöl og útflutningsreikningar. Það hefur þess vegna ekki getað farið milli mála um það, að meira væri tíundað af útflutningnum, en rétt er. Og þessi skjöl þurfa, eins og þm. er kunnugt, líka að ganga í gegnum tollstofuna út af útflutningsgjaldinu, svo að það er sem sagt svo mikið, alveg nægilegt eftirlit með því, að þar þarf engu að muna. Um lýsi gildir raunar sama höfuðreglan, að það verður vegna útflutningsgjaldsins að sanna fyrir yfirvöldunum, hve mikið hafi verið flutt út, en það er mjög mikill munur á þorskalýsinu, bæði gæðamunur og blátt áfram tegundamunur, þar sem það er vitanlegt, að vetrarvertíðarlifrin gefur oft meira, en helmingi meiri afrakstur í lýsi en önnur lifur, og það var svo lengi vel, að á sumum árstíðum þótti það ekki borga sig á ströndinni, eins og það var kallað, að hirða sumarlifrina, vegna þess hvað lýsið var lítils virði. Þar sem ég er allvel kunnugur lifrarbræðslu, hef bæði unnið við hana sjálfur og fylgzt vel með slíkum rekstri, þá ætla ég, að það verði að vera góð lifur, sem gefur 60% lýsi, því að lýsismagnið, sem fæst, er allt niður í 22%. Eftir brtt. um ábyrgð á lifrinni er ekki gert ráð fyrir þessum gæðamun, og þó að slík greining ætti ef til vill að verða reglugerðaratriði, þá er þess að gæta, að mjög erfitt væri að finna reglu til þess að fara eftir í þeim sökum, auk þess sem verðgildi lýsisins fer líka eftir efnainnihaldi þess, það er að segja eftir því, hversu mikið er í því af A- og D-vítamínefnum, og gera kaupendur lýsisins kröfu til að fá slíka greiningu frá opinberri stofnun, áður en þeir festa kaupin á lýsinu. Í sambandi við þessi mismunandi gæði lýsisins mundi vera nauðsynlegt að skipta því í 5–6 flokka, ef þessi umrædda ábyrgð ætti að vera réttlát, og væri slík skipting harla erfið í framkvæmd. Auk þess afla bæði togarar og færeyskir fiskibátar lifrar hér við land. Það gæti því reynzt erfitt að fá fulla vissu um, hvort um ábyrgðarlifur væri að ræða eða aðra. Ströndin er stór og fiskiplönin mörg og eftirlitið þar af leiðandi erfitt. Og sannast að segja finnst mér þetta mál ekki svo þýðingarmikið, að það mundi borga sig að þurfa að setja svo mikið apparat í gang sem slíkt eftirlit væri. Þetta vildi ég benda á. Og þar sem þetta mál er ekki neitt skilyrði frá útvegsmönnum, en mundi hins vegar kosta ríkissjóð mikið fé og verða mjög erfitt í framkvæmd, þá vil ég leyfa mér að flytja brtt. þess efnis, að síðari mgr. 1. gr. falli niður, það er að segja, að ekki sé tekin ábyrgð á lifur. Hins vegar tel ég koma til mála, að óskir útvegsmanna þess efnis, að lýsinu verði bætt á frílista, verði teknar til greina. Það er auðveldara í framkvæmd og kemur réttlátara niður á landshluta.

Ég ræði þetta svo ekki frekar, nema tilefni gefist, en leyfi mér að afhenda hæstv. forseta þessa brtt. og vænti þess, að hv. dm. samþykki hana.