10.05.1950
Sameinað þing: 47. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í D-deild Alþingistíðinda. (3959)

154. mál, vélræn upptaka á þingræðum

Flm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég var ekki viðbúinn að tala hér nú í þessu máli, en það er um að ræða till. á þskj. 620. Ástæðan til þess, að við flm. höfum borið þessa till. fram, er sú, að síðan nokkru eftir 1930 hefur verið um það talað, hve mikill kostnaður væri við að prenta umræðupart alþingistíðindanna, og hvort ekki væri rétt, að því yrði hætt. Svo hefur þó ekki orðið, en fyrir þremur árum kom fram ný stefna í málinu, að athugað yrði, hvort ekki mætti koma því svo fyrir, að ræðurnar væru til, þó að hætt væri að prenta. þær. Með því að geyma þær á stálþræði eða öðrum tækjum — það má líka nota plastþráð — væri þetta hægt. Þetta hefur fallið niður um stund, en það væri æskilegt, að hæstv. forsetar tækju nú rögg á sig og athuguðu málið. Ég held, að það mundi spara kostnað við skriftir, ef ræður þm. væru teknar þannig upp, og þm. mundu verða fáorðari og halda skilmerkilegri ræður, ef töluð orð yrðu ekki aftur tekin. Í öðru lagi virðist mér, að duglegar og fljótar vélritunarstúlkur gætu þá skrifað niður ræðurnar. Plötu má stilla eins hægt og manni sýnist, stálþráðurinn fer með meiri hraða, en honum má kippa til baka og láta hann endurtaka sig. Ég hef hugsað mér, að hægt væri að taka sex eintök í einu eftir þræðinum, síðan mætti fjölrita eftir þessu handriti, og þm. gætu þá fengið ræðurnar strax. Nú er það svo, að umræðupartur alþingistíðindanna 1946 er ekki fullprentaður, en eitthvað hefur verið byrjað á árinu 1947. Svona fyrirkomulag er erfitt að una við. Ef horfið yrði að vélrænni upptöku, mætti leysa þetta fljótt og vel af hendi, ræðurnar yrðu teknar af þræðinum næsta dag og Alþ. gæti látið gefa út útdrátt úr þeim, er seldur yrði á götunum og sendur út um land. Þá væri þráðurinn einnig heppilegur fyrir þingfréttir útvarpsins, þar sem skjóta mætti inn í þær meiri háttar yfirlýsingum, er fram koma frá ráðh. og öðrum. Ókunnugt er, hvaða kostnað þetta mundi hafa í för með sér, og dálítill vafi er á því, að tækin verði komin fyrir næsta þing. En það mætti reyna þetta í annarri d. Ég vil beina því til hæstv. forseta, að þeir athugi, hvort þessi tæki eru ekki betri en að hafa þetta eins og það er nú. Ég efa ekki, að þeir vilji snúast fljótt við till. og hraða framkvæmdum eins og unnt er.

Fjvn. er svo önnum kafinn, að ég tel bezt, að till. sé vísað til allshn., hún hefur minna starf. Ef þingsköp ekki hamla, er það því mín till., að allshn. taki við málinu.