10.05.1950
Sameinað þing: 47. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í D-deild Alþingistíðinda. (3964)

156. mál, loftskeytastengurnar á Melunum í Reykjavík

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég hef, eins og sjá má á þskj. 648, leyft mér að bera fram till., er miðar að því að skapa aukið öryggi fyrir allar flugsamgöngur í landinu, því að Reykjavíkurflugvöllur er miðstöð fyrir flugsamgöngur okkar, bæði frá og til útlanda og í sambandi við innanlandsflugið. Það er orðið alllangt síðan eldri og reyndari flugmenn hófu máls á því, að stengurnar á Melunum væru hættulegar flugvélum. Þær voru reistar fyrir mörgum árum, fyrir firðþjónustu við skip, og til þess að skeytasamband væri við útlönd, ef sæsíminn bilaði. Nú er hins vegar ekki lengur þörf á að nota langbylgjur, svo að þetta er breytt frá því, sem áður var. Á seinni árum hefur Landssími Íslands reist loftskeytastöð á Rjúpnahæð, sem fullnægt gæti þessari þjónustu. Það fóru fram ýmsar umr. um þetta mál, þegar ég gegndi embætti flugmrh. Haldnir voru fundir í stjórnarráðinu, þar sem mættir voru forustumenn pósts og síma og forseti Slysavarnafélags Íslands, og reynt að leysa þetta mál. Um slysahættuna var enginn ágreiningur. Í hinum teknisku umr. komu hins vegar fram athugasemdir af hálfu landssímans, sem sérfræðingar virtust þó mótmæla með fullum rökum. Svo virtist, sem málið væri hálfgert tilfinningamál fyrir landssímann, en ég skal þó ekki fullyrða, að ég hafi skilið þar rétt. Aðalatriðið var, að allir voru sammála um slysahættuna. Sú n., sem settist á rökstóla, komst að þeirri niðurstöðu, að kostnaðurinn við að flytja stengurnar mundi verða um 700 þús. kr. Nú hefur mér síðar verið tjáð, að það þyrfti ekki að gera skaða, þó að horfið yrði að því ráði að taka stengurnar niður, því að á Rjúpnahæð hefur verið útbúin stuttbylgjustöð, og nýlega hefur tekið til starfa talþjónusta við útlönd, sem nær óraleiðir. Þetta vissum við ekki, er við ræddum við landssímann, en það breytir viðhorfinu, þegar glímt er við að hafa skeytasamband án þessara háu stanga. Mér er sagt, að þarna hafi orðið hræðilegt slys á stríðsárunum, en ekki veit ég, hvort það voru þræðirnir, stengurnar eða hvort tveggja, sem því olli. Ekkert var um þetta birt, en það var svo nærri húsum, að ekki var hægt að dylja það. Ég skýrði frá því í umr. um fjárl., að á síðastl. ári hafa verið fluttir um Reykjavíkurflugvöll yfir 47 þús. farþegar. Þegar slíkur fjöldi er á ferð í loftinu, held ég, að rétt sé að ryðja þessum farartálma úr vegi. Þessar siglur eru nokkur hundruð metra háar og reyndir flugmenn hafa sagt mér, að hvergi annars staðar mundi slíkur farartálmi liðinn nálægt flugbraut. Það er betra að byrgja brunninn, áður en eitthvað hendir. (ÞÞ: Er ekki búið að verða slys?) Jú, að vísu, en það var ekki gert opinbert. Það ber lítið á ljósinu á stöngunum. Mér er sagt, að í nánd við Boston séu einhver slík möstur og að þau séu eitt ljóshaf. Hér eru tvær rauðar týrur, sem varla sjást, þegar þoka er eða slæmt skyggni.

Ég skal svo ekki þreyta hv. þm. frekar. Grg. ber með sér, hvað átt er við. Í sambandi við brottflutning mastranna verður einhver kostnaður fyrir landssímann og flugmálastj., og hygg ég því, að till. eigi heima hjá fjvn. Ég legg til, að till. verði vísað til síðari umr. og þeirrar n. Ég vil mælast til þess við n., að hún afgr. málið áður en þessu þingi lýkur. Ef ekki verður hafist handa í þessu efni, getur það haft hinar örlagaríkustu afleiðingar.