30.11.1949
Sameinað þing: 6. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í D-deild Alþingistíðinda. (3984)

31. mál, Sogsvirkjun og Laxárvirkjun

Fyrirspyrjandi (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Tilefni til þeirrar fyrirspurnar, sem ég hef leyft mér að flytja hér á þskj. 38, er það, að eins og hv. þm. er vafalaust kunnugt, þá hefur nú um allmörg ár staðið yfir undirbúningur þess að stækka raforkuveitur þær, sem byggðar hafa verið, annars vegar að því er snertir Sogsvirkjunina fyrir Reykjavík og Suðvesturland, og hins vegar virkjunina í Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu fyrir Akureyrarkaupstað og nærliggjandi sveitir. Má í því sambandi minna hér á, að fyrir hálfu þriðja ári síðan var þetta mál talið svo aðkallandi, að Alþ. sá ástæðu til þess að veita ríkisstj. heimild til þess að festa þá þegar kaup á vélum og efni til virkjunar Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, til þess að sá langi afgreiðslufrestur, sem á slíkum hlutum er erlendis, þyrfti ekki að verða til þess, að óhæfilega langur dráttur yrði á framkvæmd þessa nauðsynjaverks.

Nú hefur þetta hins vegar orðið svo, að þessi heimild, sem Alþ. veitti ríkisstj., hefur enn ekki verið notuð. Og yfirleitt hefur þessi undirbúningur þegar tekið það langan tíma, að nú er þegar komið svo málum, að tilfinnanlegur skortur er orðinn á raforku fyrir orkuveitu Laxárvirkjunarinnar. Nú hefur náttúrlega verið talið standa á ýmsu um þennan undirbúning. Og hæstv. ríkisstj. hefur sjálfsagt einhverjar afsakanir fram að færa fyrir því að hafa ekki notað þessa heimild. Og m. a. hefur því verið haldið fram í sambandi við það t. d., að Laxárvirkjunin er ekki komin lengra en orðið er, að fé hafi ekki verið fyrir hendi til þessara framkvæmda. Nú munu hv. þm. kannske segja sem svo, að það sé mál Akureyrarkaupstaðar og bæjarstjórnarinnar þar að útvega fé til framkvæmdanna, og sjálfsagt er það verkefni hennar að verulegu leyti. En hins vegar hafa afskipti ríkisstj. verið það mikil af þessu máli, og mun, a. m. k. upp á síðkastið, hafa af bæjarstjórninni verið treyst á það, að ríkisstj. mundi leysa þann vanda, sem fyrir hendi er um að útvega þetta lánsfé, enda mun það hafa verið svo, að tímanlega á s. l. sumri mun hæstv. atvmrh., sem þessi rafmagnsmál heyra undir, hafa tilkynnt bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar, að ríkisstj. væri þá með á prjónunum einhverjar ákveðnar ráðstafanir til þess að útvega þetta lánsfé, sem þyrfti til þess að koma þessari stórvirkjun í framkvæmd. Að hinu leytinu þá var það fyrir tiltölulega skömmum tíma upplýst í bæjarstjórn Akureyrar, að henni hefðu ekki borizt neinar upplýsingar um það, hver árangur hefði orðið af þessum ráðstöfunum ríkisstj.

Ég hef því talið ástæðu til þess að leggja fram þá fyrirspurn, sem hér liggur fyrir, og óska eftir, að hæstv. ríkisstj. gefi nú hæstv. Alþ., sem gaf henni fyrir rúmlega tveimur og hálfu ári þá heimild, sem ég nefndi áðan, upplýsingar um það, hvernig þetta mál stendur, og þá sérstaklega þessi þáttur þess, sem mun nú vera það, sem mestu máli skiptir um það, hvort framkvæmdirnar verða gerðar fyrr eða síðar; hvaða ráðstafanir ríkisstj. hefur gert til þess að útvega þetta nauðsynlega lánsfé, og hver árangur þá hafi orðið af þessum ráðstöfunum.

Sé ég svo ekki ástæðu til að fara um þetta mál fleiri orðum, að svo komnu, en vænti þess að fá umbeðnar upplýsingar, sem vonandi benda til þess, að einhverjar framkvæmdir geti orðið í þessum efnum, áður en langt líður hér frá, því að þessi dráttur er þegar orðinn mjög langur og mjög bagalegur fyrir þau héruð, sem eiga að njóta þessara framkvæmda, sem hér er um að ræða.