14.12.1949
Sameinað þing: 10. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í D-deild Alþingistíðinda. (3992)

57. mál, hlutatryggingasjóður bátaútvegsins

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það er vissulega rétt hjá hv. fyrirspyrjanda, að menn hafa beðið þess með óþreyju, að hlutatryggingasjóðurinn taki til starfa, en nú vildi ég spyrja hv. þm., hvort hann hafi kynnt sér afgreiðslu málsins á síðasta þingi, en þar var gangur málanna sá, að sjútvn. Ed. lagði til, að tekjur sjóðsins yrðu allt aðrar en þær eru nú. Sjútvn. Ed. lagði sem sé til, að tekjur sjóðsins yrðu fengnar með því að taka ½% innflutningsgjald af öllum innfluttum vörum, og það gjald áttu innflytjendur að greiða, án þess að mega leggja það á vöruna. En hvað skeði þá? Þá skeði það, að allur Framsfl. reis upp öndverður og fékk með aðstoð annarra innflytjenda komið í veg fyrir þetta, en það þýðir, að sjóðurinn tekur til starfa mun seinna en ella hefði orðið. Það væri gott, ef hv. fyrirspyrjandi vildi beita sér fyrir því innan síns flokks, að málið yrði aftur fært í það horf, sem sjútvn. Ed. valdi. Það mundi vissulega verða öllum, sem hlut eiga að máli, að meira gagni, en fyrirspurnir um málið.