14.12.1949
Sameinað þing: 10. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í D-deild Alþingistíðinda. (3993)

57. mál, hlutatryggingasjóður bátaútvegsins

Fyrirspyrjandi (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. ráðh. greinargóð svör. — Út af ummælum hv. þm. Barð. vildi ég segja þetta: Mér er vel kunnugt, að um þetta mál var mikill ágreiningur á síðasta þingi og að frv. tók miklum breytingum í meðferð þingsins. En eins og nú standa sakir, tel ég það aðalatriðið, að lögin komi til framkvæmda strax. Sú afstaða mín er í fullu samræmi við afstöðu þeirra manna, sem þarna eiga mest undir, sbr. skýrslu fiskimálastjóra til fiskiþingsins, sem ég gat um áðan.