11.01.1950
Sameinað þing: 16. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í D-deild Alþingistíðinda. (4004)

900. mál, lánveitingar til skipakaupa o.fl.

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þessum bátaviðskiptum mun mega skipta í tvo kapítula, og eru Svíþjóðarbátarnir í þeim fyrri.

Á árunum 1943 og 1944 hafði ríkisstj. með höndum athugun á möguleikum á smíði fiskiskipa í Svíþjóð. Eftir að leyfi sænskra stjórnarvalda var fengið fyrir smíði 45 tréskipa, voru uppdrættir gerðir af tveimur stærðum skipa, 50 rúmlesta og 80 rúmlesta, og tilboða leitað í smíði þeirra og jafnframt tilboða í vélarnar. Áður en tilboðin voru samþykkt, var spurzt fyrir um það hjá þingflokkunum, hvort þeir teldu rétt að samþykkja fram komin tilboð á umræddum 45 skipum, þrátt fyrir óvissu þá, sem var um kaupendur skipanna. Að fengnu samþykki allra þingflokkanna var sendiráðinu í Stokkhólmi hinn 19. sept. 1944 falið að samþykkja hagkvæmustu tilboðin. Væntanlegum kaupendum var tilkynnt, að þeir yrðu að greiða 125 þús. kr. upp í andvirði 50 rúmlesta skipanna og 150 þús. kr. upp í andvirði 80 rúmlesta skipanna. Vegna örðugleika kaupenda á greiðslu hins tilskilda framlags var það af stjórn þeirri, er tók við völdum í okt. 1944, lækkað niður í 60 þús. kr. á minni skipin og í 75 þús. kr. á þau stærri. Á árinu 1945 var samið um smíði 5 skipa til viðbótar, eða alls 50 skip. Fyrstu skipin komu heim á árinu 1946 og það síðasta á árinu 1948.

Strax og ráðuneytið fékk uppgjör á smíðakostnaði hvers skips, en hann var mjög mishár innan hvers flokks vegna breytinga kaupendanna, voru eigendur krafðir um greiðslu. Þrátt fyrir hin hagkvæmu lánskjör, er stofnlánadeild Landsbankans veitir, gekk kaupendunum mjög erfiðlega að gera skil, sem stafaði fyrst og fremst af aflabrestinum á síldveiðunum. Öll skipin eru nú gerð upp nema 4, og nemur það með vöxtum ca. 2,6 millj. kr.

Til þess að gera kaupendum skipanna kleift að gera upp, var kaupendum 17 skipa veitt lán úr framkvæmdasjóði, og nemur það kr. 1.038.253.37. Þá skulda 15 kaupendur eftirstöðvar, og nema þær kr. 2.747.04.27. Loks eru skuldabréf 13 kaupenda fyrir stofnlánum, sem Landsbanki Íslands geymir, en hefur ekki borgað út, sem nema kr. 7.396.000.00.

Þá komum við að 2. kapítulanum, það er að segja þeim flokki báta, sem smíðaðir hafa verið innanlands.

Á árinu 1945 ákvað ríkisstj. að láta smíða innanlands á næstu 1–2 árum 50 fiskibáta, ef kaupendur fengjust. Umsóknir bárust um fleiri báta, en ráðgert var að smíða, og var þá leitað tilboða í smíði þeirra.

Síðar var ákveðið, að smíðaðir yrðu aðeins 26 bátar, 17 bátar 35 rúmlestir, 7 bátar 55 rúmlestir og 2 bátar 62 rúmlestir. Samningar um smíði bátanna voru á þá leið, að skipasmíðastöðvar áttu að leggja til allt efni og vinnu, ásamt öllum venjulegum tækjum og vélum að undanteknum aðalvélum, sem ráðuneytið átti að útvega sérstaklega.

Við smíði bátanna hafa þeir reynzt nokkru stærri, en ráð var gert fyrir í upphafi, þannig: 35 rúmlesta bátar reyndust um 37–44 rúmlestir, 55 rúmlesta bátar reyndust um 66 rúmlestir, 62 rúmlesta bátar reyndust um 65 rúmlestir.

Kostur hefur þetta þótt, að bátarnir reyndust þetta stærri, en þar sem verðið var miðað við rúmlestastærð, verða þeir talsvert dýrari.

Söluskilmálar eru þeir, að kaupendur lögðu fram við kaup 100 þús. kr. fyrir stærri bátana og 70 þús. kr. fyrir þá minni. Í þremur tilfellum hefur aðeins verið krafizt 60 þús. kr. útborgunar fyrir minni bátana og einn bátur án nokkurrar útborgunar skv. þál. 23. maí 1947.

Fiskveiðasjóður lánar um helming kostnaðarverðs, síðan koma lán úr styrktar- og lánasjóði fiskiskipa, 100 þús. kr. út á stærri bátana en 90 þús. kr. út á þá minni. Eftirstöðvar kaupverðsins lánar ríkissjóður til bráðabirgða gegn veði í bátnum.

Bátarnir eru seldir fyrir kostnaðarverð að viðbættum 4% vöxtum af því fé, sem ríkissjóður hefur í þá lagt, hvern fyrir sig.

Allir stærri bátarnir eru þegar seldir, og af þeim eru 8 þegar fulluppgerðir. Hefur söluverð þeirra numið samtals kr. 5.422.094.00. Um einn bátanna hefur svo um samizt, að skipasmíðastöðin sjálf ætlar að kaupa hann, án aflvélar.

Af minni bátunum eru allir fullsmíðaðir. Þessir bátar eru allir seldir, og af þeim eru 9 fulluppgerðir, og hefur söluverð þeirra numið kr. 3.918.212.22. Frá sölu hinna hefur ekki verið formlega gengið, bæði vegna erfiðleika skipasmíðastöðvanna á því að gera fullkomin skil og tregðu kaupendanna á því að ganga endanlega frá kaupunum.

Lán frá ríkissjóði til þessara báta, sem þegar eru uppgerð, þ. e. a. s. samþykktir hafa verið víxlar fyrir þeim, nema kr. 2.664.513.41. Þessa upphæð hefur ríkissjóður lánað út á uppgjör á innlendum bátum, þ. e. uppgerða reikninga, og viðbúið er, að það þurfi að lána til viðbótar kr. 1.159.033.37, svo að það, sem ríkissjóður lánar því til þessara báta, nemur samtals kr. 3.823.546.78.

Að því er snertir þessi afskipti ríkisstj. af þessum málum, þá hef ég lýst því, að þau voru gerð fram að því, er ríkisstj., sem fór með völd til haustsins 1944, fór frá, með samþykki allra þingflokkanna. Síðar, þegar stofnlánadeild hafði ekki lengur fé til tilskilinna lána og útgerðarmenn gátu að öðrum kosti ekki gengið frá kaupunum, þótti sá kostur beztur fyrir ráðuneytið að lána til útgerðarmanna, án þess að fyrir því væri sérstök heimild í lögum, en það gaf auga leið, að hafa yrði tök á því, að þeir, sem hug hefðu á að eignast og gera út báta, gætu komið þeim í drift, eins og kallað er, og var þeim því lánað í beinu framhaldi af því, sem gert var, þegar um bátakaupin var að ræða á sínum tíma, og ríkið hafði áður hlaupið undir bagga. Annar var sá kostur að láta flytja bátana inn og standa af þeim þunga byggingarkostnaðarins og láta þá síðan standa í naustum, þegar ekki var hægt að greiða þá, og hygg ég, að flestir hafi séð nauðsyn þess að koma bátunum í gagn, þó að ríkið þyrfti þá að hlaupa meir undir bagga, heldur en í fyrstu var ætlunin. Þá er og hitt, að aflabresturinn á síldveiðunum hefur fært þetta allt á annan og lakari veg, en vonað var.

Þá vil ég skýra frá því, að á s. l. ári var nokkrum hraðfrystihúsum heitið fyrirgreiðslu um lánveitingu eftir nokkurn tíma, og er nú leitað heimildar í 22. gr. fjárl. til að standa við það, og er svo ástatt fyrir eigendum húsa þessara og þeim héruðum, sem þau eru í, að stórtjón verður að, ef ekki er hægt að ljúka við þau. Hús þessi eru fjögur: eitt á Fáskrúðsfirði, eitt á Húsavík og tvö í Vestmannaeyjum.

Um þessi mál í heild vil ég segja það að lokum, að allur sá stuðningur, sem ríkissjóður hefur orðið að láta í té, stafar af því, að stofnlánadeildin hefur ekki haft nægilegt bolmagn til að standa undir þeim bátum og fyrirtækjum, sem henni var fyrirhugað að gera. Ég vil svo að endingu taka undir það, sem hæstv. fjmrh. sagði, að ríkissjóður hefði engin stofnlán veitt, heldur fé til þess að stöðva ekki framleiðslu vegna fjárhagsvandræða.