11.01.1950
Sameinað þing: 16. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í D-deild Alþingistíðinda. (4006)

900. mál, lánveitingar til skipakaupa o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það hefur verið á almannavitorði, að stofnlánadeildin hafði of lítið fé til að lána út á togarana. Ég stóð því í þeirri meiningu, að þetta vandamál væri óleyst enn þá, þar sem það hafði ekki verið lagt fyrir þingið, og kom mér því undarlega fyrir sjónir, þegar ég heyrði, að ríkissjóður hefði veitt lán í þessu skyni gegn 2½% vöxtum. Hæstv. fjmrh. sagði, að nýbyggingarráð hefði lofað stofnlánum út á alla togarana og að í því hefði falizt svo mikil skuldbinding, að ríkissjóður hefði verið bundinn við að standa við það, er geta stofnlánadeildar þraut. Ég er ekki vel kunnugur þessum málum, en tel rétt að athuga, hvort ríkissjóður er svo bundinn af þessu, að hann sé skyldur til að taka þetta að sér, ef það verður ekki leyst á annan hátt.

Þá skal ég víkja að nokkru að hraðfrystihúsunum, en það var þeirra vegna, sem ég stóð nú upp. Hæstv. sjútvmrh. lýsti því yfir, að ráðuneytið hefði gengið í að útvega lán til þeirra húsa, sem sérstaklega illa væru á vegi stödd. Ég þekki dæmi þess, að húsbygging hefur verið strönduð og ráðuneytið hefur gengið í að útvega lán, og tel ég slíkt síður en svo ámælisvert. En ég vil benda á, að hraðfrystihúsin höfðu kannske einnig loforð frá nýbyggingarráði eins og togararnir. Ef svo er, er hér um tvenns konar framkomu að ræða, þar sem togararnir fengu strax lán með 2½% vöxtum hjá ríkinu, en hraðfrystihúsaeigendur hafa orðið að basla með bráðabirgðalán. Þetta vil ég benda á og að það verður að taka skipulega á málum frystihúsa þeirra, sem urðu of sein til að fá lán úr stofnlánadeildinni, og það er engin hliðstæða í því að togararnir fái strax hagstæð lán með 2½% vöxtum, á meðan hraðfrystihúsin eru á hrakhólum með sínar fjárreiður og háa vexti af lánum sínum. En hvort sem nýbyggingarráð hefur nú gefið þessum aðilum mismunandi loforð eða ekki, vildi ég vekja athygli á þessum vandræðum frystihúsanna og nauðsyn þess að finna viðunandi lausn á þessum málum.