11.01.1950
Sameinað þing: 16. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í D-deild Alþingistíðinda. (4007)

900. mál, lánveitingar til skipakaupa o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hafði tvívegis í tíð hæstv. fyrrv. ríkisstj. spurt að því, hvað ríkisstj. hugsaði sér til að leysa lánavandræði þeirra, sem ekki komast í stofnlánadeildina. En ég fékk aldrei svar við þeim fyrirspurnum mínum, og nú koma loksins upplýsingar um það, hvað hæstv. fyrrv. ríkisstj. hafi gert í þessum efnum, — en nokkuð seint samt. Hv. þm. V-Húnv. gerði hér áðan þá athugasemd, hvers vegna mál þetta hefði aldrei verið lagt fyrir Alþ., og það var einmitt þess vegna sem ég nú kvaddi mér hljóðs. Ég gerði tvær tilraunir til að fá hæstv. ríkisstj. til að gera það, en allt kom fyrir ekki, og færði ég það þá sjálfur inn í þingið. Ég lagði fram frv. um breyt. á lögum um stofnlánadeildina, þar sem lagt er til, að 6. gr. sé felld niður, þannig að stofnlánadeildin fengi afborganir af eldri lánum, í stað þess að þær renna nú inn í seðladeildina, og hefði stofnlánadeildin þá haldið áfram að hafa 100 millj. kr. til útlána. Það var rangt hjá hæstv. fjmrh., að borgaðar hefðu verið aðeins 12 millj. kr. til seðlabankans, heldur hafa verið greiddar til hans 17 millj. kr., og er því fjármagn stofnlánadeildarinnar komið niður í 83 millj. kr. En sú fjárhæð, sem búið er að greiða til seðladeildarinnar, er nálega jafnhá upphæð og ríkið lánar nú til hinna 7 togara með ærnum tilkostnaði fyrir ríkissjóð. Þessir peningar væru því til umráða, ef Alþ. hefði viljað gera þá breytingu, að fé þetta væri ávaxtað hjá stofnlánadeildinni, en ekki hjá seðladeildinni. Enn fremur var lagt til í frv. mínu að breyta vaxtafyrirkomulaginu. Stofnlánadeildin lánar út gegn 2,5% vöxtum, og í frv. mínu er lagt til, að seðladeildin reikni 1% vexti af lánum sínum til stofnlánadeildarinnar, en þeir eru nú reiknaðir 2,4%, þannig að stofnlánadeildin lánar út með aðeins 0,1% vöxtum, sem sviptir hana öllum möguleikum til ódýrra lána. Ef hún hefði aftur á móti fengið lánin hjá seðladeildinni með 1% vöxtum, þá hefði hún getað grætt 1–1,5 millj. kr. á ári, en það er nóg til að standa undir hjálp við bátaútveginn. Þetta er aðeins reikningsspursmál fyrir Landsbankann, hvort gróðinn lendir hjá seðladeildinni, en þetta er bara tilhneiging til að hafa sem hæsta vexti. Þetta vandræðamál væri hægt að leysa, ef frv. mitt hefði verið samþ., og það er hægt að gera enn, því að ég mun gera tilraun til að taka málið upp að nýju, og þá verður hægt að leysa málið.