11.01.1950
Sameinað þing: 16. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í D-deild Alþingistíðinda. (4011)

900. mál, lánveitingar til skipakaupa o.fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það hefur verið sagt hér, að aðeins hafi verið tveir kostir fyrir hendi fyrir ríkisstj. í þessu máli. En þetta er rangt. Kostirnir voru þrír, og sá þriðji var að snúa sér til Alþingis. Það hefur ekki verið gert, og kemur þarna fram það, sem einkennt hefur tvær fyrrverandi ríkisstjórnir, að fara á bak við Alþingi sem allra mest. Það er mýgrútur af málum, sem afgreidd hafa verið af þeim upp á eigin spýtur, án þess að Alþingi hefði hugmynd um. Fyrir Alþingi er þessi einræðishneigð ákaflega alvarlegt mál. Hvað þetta mál snertir var ríkisstj. í lófa lagið að leggja það fyrir Alþingi, og henni bar skylda til þess. Nú er það upplýst af ríkisstj., að búið sé að lána 25 millj. kr. til skipakaupa. Það er nú búið að ákveða að byggja enn nýja togara. Á nú ríkissjóður líka að lána fé til þeirra togarakaupa? Ég spyr: Er það ekki ætlunin, að ríkissjóður láni líka fyrir nýju togarana? — Ég sé ekki, að neinir frekari möguleikar séu á því að komast hjá því, en að lána þessar 25 millj. Er ekki stofnlánadeildin tóm? Og hvar hefur þá ríkisstj. hugsað sér að taka þær milljónir?