11.01.1950
Sameinað þing: 16. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í D-deild Alþingistíðinda. (4012)

900. mál, lánveitingar til skipakaupa o.fl.

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég held — út af ummælum hv. 1. þm. N-M., að það liggi ekki sérstaklega fyrir hér að ræða nýju togarakaupin eða hvað ríkisstj. hafi í huga gagnvart þeim. Væri það meiningin, virðist mér sem það mundi vera réttara að taka það undir sérstakan lið. — Þá sé ég ekki, að sé réttmætt ásökun, að ríkisstj. hafi haft sérstaka tilhneigingu til að fara á bak við Alþingi. Hitt er rétt, að það fellur oft í hlut ríkisstjórnar á hverjum tíma að verða að ráða fram úr aðstæðum, sem skapast vegna skuldbindinga Alþingis eða fyrrverandi ríkisstj., eftir því sem heilbrigð skynsemi segir til og tök eru á. Hvað snertir þetta mál, var það ábyggilega ekki heppilegt að láta bátana standa ónotaða á skipasmíðastöðvunum, þótt þeir, sem áttu að fá þá, væru ekki reiðubúnir til þess að greiða þá. Ný skip standa aldrei þannig í marga mánuði, án þess að þau fari að tapa sér og missa sitt gildi. Þegar þannig stóð á, var ekki annað fært en að greiða fyrir kaupunum. — Nú er langt frá því, að menn hafi yfirleitt ekki getað borgað togarana. Þeir, sem fengu stofnlán, lögðu fram sitt fé á móti, og lánin voru þeim næg hjálp. Mér virðist, að ráðið hafi verið fram úr þessu á eðlilegan hátt eftir atvikum. Annað mál er það, að það kemur til með að þurfa að gera í þessu efni sérstakar ráðstafanir með breytingu á lögum um stofnlánadeildina.