18.01.1950
Sameinað þing: 19. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í D-deild Alþingistíðinda. (4020)

89. mál, stríðsskaðabætur af hálfu Þjóðverja

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi beindi þessari fyrirspurn ekki til mín eða míns ráðuneytis, en ég hafði hins vegar búið mig undir að svara henni, af því að utanrrn. hefur mest um þetta mál fjallað. Eins og heyrzt hefur og kunnugt er, þá var á það bent af hálfu ríkisstjórna Bretlands, Bandaríkjanna og Frakklands, að eðlilegt væri, að ísl. ríkisstj. tæki eignir Þjóðverja hér á landi og ráðstafaði þeim, enda væri ekki annarra bóta að vænta af hálfu Þjóðverja, en af þessu fé fyrir það tjón, sem Íslendingar urðu fyrir af þeirra völdum á ófriðarárunum.

Þær eignir, sem hér er um að ræða, eru húseignin við Túngötu 18, sem var eign þýzka ríkisins, en eins og hv. fyrirspyrjanda ætti að vera kunnugt, er þar aðsetur dómsmrn. núna, — og auk þess um 4 millj. kr., sem álitnar voru innstæður Þjóðverja, sumpart einstaklinga og sumpart þýzka þjóðbankans.

Á þessar eignir hefur verið lagt hald, eða þær verið festar, þannig að ríkisstj. hefur getað ráðstafað þeim, eða að minnsta kosti er ekki hægt að ráðstafa þeim án samþykkis ríkisstj., en endanleg ákvörðun hefur ekki verið tekin um ráðstöfun á þessum eignum, en ríkisstj. telur þýðingarmikið í þessu sambandi, að séð verði um einhverja greiðslu til aðstandenda þeirra Íslendinga, sem fórust af völdum Þjóðverja, meðan á styrjöldinni stóð, og ótryggðir voru, og sýnist mér það vera í samræmi við skoðanir hv. fyrirspyrjanda. Hins vegar kann svo að fara, að breyta verði ráðstöfun á einhverjum einstökum hluta þessa fjár, og einnig, að eitthvað af þessu fé yrði losað, og kann sanngirni að mæla með því. T. d. hefur komið fram ósk um það frá Braun kaupmanni, að eitthvað af fé hans yrði losað, en hann lézt þá skömmu síðar, án þess að frekar yrði gert í málinu. En nú er það hins vegar rétt, að þetta fé er komið í umsjá fjmrn., og að því leyti er því ef til vill rétt að beina fyrirspurninni til fjmrh. um það, hvernig því muni ráðstafað.